Fjölbragðakappinn úr Trainwreck semur við LFE

Bandaríski fjölbragðaglímukappinn John Cena, sem allir sem séð hafa gamanmyndirnar Trainwreck og Sisters ættu að kannast við, John Cena, hefur skrifað undir samning við framleiðslufyrirtækið Leftfield Entertainment ( LFE ) um gerð ýmissa sjónvarpsþátta fyrir sjónvarp og stafræna miðla.

Í myndinni hér að neðan er hann í rúminu með Amy Schumer í Trainwreck, en þar lék hann einn af kærustum hennar.

john-cena

Um er að ræða áframhald samvinnu Cena og fyrirtækisins, en Cena er aðalleikari og framleiðandi raunveruleikaþáttanna American Grit sem sýndir eru á Fox sjónvarpsstöðinni, en í þeim keppa 16 hraustustu menn og konur Bandaríkjanna í einhversskonar herþjálfun. Verðlaunafé er ein milljón Bandaríkjadalir.

Verkefnið sem Cena og LFE ætla að vinna saman verða meðal annars á sviði fasteigna og bygginga, auk annarra þátta fyrir bæði kynin .

„Hvort sem ég er í hringum fyrir WWE ( World Wrestling Entertainment ) eða í sjónvarpi eða að leika í kvikmynd, þá nálgast ég alla hluti eins – einbeittur og 100% í verkefninu.“

Cena hefur verið ein helsta stjarna WWE fjölbragðaglímunnar í um tvo áratugi.