Horfir 20 sinnum á bíómyndir

Tvöfaldi Óskarstilnefndi leikarinn Jonah Hill, sem unnið hefur með leikstjórum eins Martin Scorsese ( The Wolf of Wall Street ), Quentin Tarantino ( Django Unchained ) og Coen bræðrum ( Hail, Caesar! ), segir í samtali við The New York Times tímaritið að leyndarmálið á bakvið það að verða frábær leikari sé að horfa aftur og aftur á bíómyndir.

jonahhill

Nýjasta mynd Hill, War Dogs, sem er sannsöguleg saga um tvo félaga sem fá risasamning um að selja Bandaríkjamönnum vopn, verður frumsýnd hér á landi 2. september nk.

„Ég horfi á hluti aftur og aftur,“ segir Hill aðspurður um leyndarmálið á bakvið það að vera góður leikari.  Hann segist sérstaklega velja myndir eftir frábæra leikstjóra eins og Paul Thomas Anderson, Francis Ford Coppola og Spike Jonze, og segist horfa á myndir þeirra 20 sinnum.

Þessi aðferð hefur hjálpað honum að vera útsjónarsamur þegar kemur að því að velja sér hlutverk. Hann velur hlutverkin frekar útfrá leikstjóra en handriti. „Ég hef lesið handrit sem eru jafnvel ekki tilbúin, en leikstjórinn var frábær, og ég endaði með að verða mjög stoltur af myndinni,“ segir Hill.

Hill hefur þó einnig leikið í myndum sem hafa kolfallið. Strax eftir að hann lék í Moneyball, sem skilaði honum Óskarstilnefningu, þá lék hann aðalhlutverkið í The Sitter, sem er með aðeins 21% á Rotten Tomatoes vefsíðunni.  Leikstjóri hennar er David Gordon Green, sem gerði rómaðar myndir eins og George Washington og Undertow.

Hill mun svo á næsta ári, samkvæmt greininni, fara sjálfur í leikstjórastólinn og leikstýra sinni fyrstu mynd eftir eigin handriti.

Stikk: