Ef eitthvað er að marka fyrstu stikluna fyrir breska gaman-hasarinn Mindhorn, þá er hér á ferðinni bráðskemmtileg mynd, en líklega þarf fólk að skreppa til Bretlands til að berja myndina augum.
Alla jafna gerast gaman-hasarmyndir á sömu stöðunum; oftast í New York, en annars í Los Angeles eða Miami , og stöku sinnum í London eða París. Það er því hressandi að fá mynd í bíó sem gerist á eynni Mön ( Isle of Man ), en þar búa aðeins um 85 þúsund manns.
Kvikmyndin er úr smiðju fyrrum meðlima grínhópsins breska Mighty Boosh, Julian Barrett og Simon Farnaby, sem einnig leika aðalhlutverk.
Barrett leikur Richard Thorncroft, útbrunninn leikara sem lifir á fornri frægð þegar hann lék MI5 njósnarann Bruce Mindhorn, sem var persóna í njósnaþáttum í sjónvarpi, og hafði til að bera hátæknilegt rafauga, sem gerði honum kleift að sjá „sannleikann“.
Áratugum eftir að hann var upp á sitt besta þá er Thorncroft nú með hárkollu og leitar í ofboði að starfi. Þegar klikkaður glæpamaður á Mön krefst þess að fá að tala við Mindhorn, þá fær hann nýtt tækifæri, nema nú er það alvara lífsins sem er tekin við!
Sean Foley leikstýrði myndinni, sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Lundúnum á síðasta ári og fékk glimrandi góðar viðtökur.
Aðrir helstu leikarar eru Essie Davis, Andrea Riseborough og Harriet Walter.
Myndin kemur í almennar sýningar í Bretlandi 5. maí nk.
Kíktu á stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: