Gamanmyndin Daddy´s Home 2 er enn á toppi listans yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins og hefur haldist þar í tvær vikur í röð. Alls sáu tæplega 4.800 landsmenn myndina yfir helgina og hafa um 15.000 manns séð myndina í kvikmyndahúsum hér á landi frá frumsýningu.
Í myndinni hafa þeir Dusty og Brad ákveðið að taka höndum saman um að halda hin fullkomnu jól fyrir börnin. Það reynir hinsvegar á þessa nýtilkomnu vináttu þeirra þegar pabbi Dusty, sem er karlremba og allur af gamla skólanum, og hinn ofurblíði og tillitssami pabbi Brad, mæta á svæðið og hleypa öllum undirbúningi í uppnám. Með helstu hlutverk fara Will Ferrell, Mark Wahlberg, Mel Gibson og John Lithgow.
Teiknimyndin Coco situr í öðru sæti listans, en alls sáu tæplega 3.000 manns myndina um helgina. Coco segir frá hinum músíkalska Miguel sem þráir að verða tónlistarmaður eins og Ernesto de la Cruz sem var álitinn stórkostlegasti gítarleikari og söngvari Mexíkó á sínum tíma. Vandamálið er að fjölskylda Miguels lítur á tónlist sem bölvun á ættinni og bannar hana alfarið í sínum húsum.
Í þriðja sæti listans eru ofurhetjurnar í Justice League, en myndin hefur verið til sýninga í kvikmyndahúsum hér á landi í fjórar vikur. Í myndinni taka Batman og Wonder Woman höndum saman og ákveða að fá til liðs við sig þá Aquaman, The Flash og Cyborg. Baráttan snýst um að bjarga mannkyninu frá útrýmingu og aðalóvinurinn er hinn ægilegi Steppenwolf.