Yfir 600 kvikmyndir verða aðgengilegar með íslenskum texta eða tali á streymisveitunni Disney+ á næstunni, þar af eru yfir 100 teiknimyndir talsettar á íslensku. Þessu greindi Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra frá á Facebook-síðu sinni í dag en hún hefur lengi unnið að því að fá Disney til að tryggja að bíómyndir frá þeim séu aðgengilegar með þessum hætti. Lilja segir þetta marka tímamót í íslenskri talsetningu og textun.
Í bréfi frá Disney til Lilju voru tilgreindar ýmsar myndir á við Gosa (Pinnocchio), Ísöld (Ice Age), Leikfangasaga (Toy Story), Frosinn (Frozen), Pétur Pan og Stjörnustríðsmyndirnar auk fjölda mynda frá Marvel. Öruggt er að segja að margir hafi glaðst þegar fóru að raðast inn myndir með íslensku tali á dögunum. Á meðal mynda má nefna Aladdín, Herkúles, Lísa í Undralandi, Ratatouille, The Incredibles, Zootropolis, Guffagrín og fleiri.
Upphaflega sendi Lilja forstjóra Disney, Bob Chapek, bréf í byrjun árs þar sem hún hvatti fyrirtækið til þess að bjóða í meira mæli upp á íslenska talsetningu og texta. Kvaðst hún þá hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar hún komst að því hve lítið af slíku efni var í boði hjá fyrirtækinu.
Viku síðar fékk menntamálaráðherra svar frá Hans van Rijn, yfirmanni Disney á Norðurlöndunum, og sagði í svari hans að tæknileg vinna við að bjóða upp á íslenskt tal og texta taka nokkra mánuði. Hefur nú fengist staðfest að myndirnar verða aðgengilegar með íslenskum texta og talsetningu á streymisveitunni Disney+ í lok júní.
Bréfið til Lilju má sjá hér í heild sinni: