Heljarinnar hasarklám og þeysireið

Tómas Valgeirsson skrifar:


Gott og vel, þá er loksins hægt að fullyrða það að einkunnarorð leikarans Keanu Reeves eigi fullkomlega og endanlega rétt á sér. Sama í hvaða tónhæð eða með hvaða stafsetningu það er skrifað þá er svívirðilega erfitt að neita Reeves um það að með þessari tilteknu spennuseríu, og þá sérstaklega fjórða (og síðasta… ish) kaflanum, geta hasarfíklar sameinast í adrenalínvímu sinni, misst neðri kjálkann nokkrum sinnum á gólfið (og í slíkum tímamæli að doði gæti orðið óhjákvæmilegur) og dáðst að öllu skrípóinu og sem ein manneskja tautað þetta staka orð sem Reeves hefur gelt út úr sér í fleiri, fleiri árin; “Whoa!” 

Þetta hlýtur að vera hann, mikli Magnum ‘WHOApus’inn hans Keanu þó úr fínni hrúgu sé að taka. Og hvað er hlaðið í hann? Þriggja tíma rússíbana-ringulreið, soðin saman úr raunsæju teiknimyndaofbeldi við þekktustu Dollaramynd Sergios Leone, The Good, the Bad and the Ugly… ef hún hefði eignast barn með flestum úr krúi The Raid myndanna.

John Wick: Chapter 4 slær tóninn strax (fast) í blábyrjun og hefst með miklum látum. Þetta ætti þó ekki beinlínis að koma á óvart því þannig er vanalega fínni hasarmynd lagið að hefjast. Hér er þó ekki átt við að myndin hefji eingöngu þessa 170 mínútna lúxuslengd sína á sterku hasaratriði, heldur bókstaflega þrumast þessi mynd í gang strax frá opnunarlógóunum með dúndrandi, nánast magakýlandi hljóðrás og krafti sem innsiglar tvennt mjög mikilvægt á skömmum tíma: Í fyrsta lagi er John Wick núna öskuæfur. Þessi ofurmannlega öfluga drápsmaskína, hefur fengið sig fullsaddan á öllu ruglinu sem að baki er. Í öðru lagi, á þessum fyrstu sekúndum fjórðu (og síðustu?) myndarinnar eru aðstandendur að segja með sínu lagi: „Haldið ykkur fast.“

Ef áhorfandinn veður beint í fjórða bitann án þess að hafa fylgt þessari þolraun Wicks eftir í fyrri lotum er trúlega auðvelt að týnast eða missa áhugann. Það sama á líklega við um fólk sem fær almennt lítið út úr gegnumgangandi hasar, últra-stílíseruðu ofbeldi eða þjáðum en flinkum Reeves í sviðsljósinu.

Fyrir hitt fólkið þó, svo ekki sé minnst á harðkjarna aðdáendur seríunnar, er ekki aðeins langvarandi gæsahúðastemning í vændum og afþreyingargildi á brandaralega háu leveli, heldur kemur aukalega í ljós að fjórði kaflinn er tvímælalaust besti bitinn í allri fernunni – og bara meistara-djöfulsins-verk af hasarperrasmíðum.

Um leið og áhorfandinn er gíraður fyrir og víraður inn í skrípaleikinn og lítur framhjá þeim vangaveltunum um hvort myndin sé fulllöng, hvort Keanu teljist enn í raun til leikara eða skemmtikraftar (galdurinn liggur oft í að fækka setningum hans sem mest), hvort augljósi fitubúningur Scott Adkins trufli eður ei, hvort þetta sé saga eða söguþráður, þá má bara leyfa rest að hellast yfir sig á meðan dáleiðslan leiðir hugmyndaflug slagsmála- og áhættuatriða að tæru stórvirki innan síns geira.  

Kameran, klippingin og dúndrandi tónlistin dansar auðvitað öll með stemningu slagsmálatilþrifa og töffaraskapsins. Það blæðir svo mikið bíó og passjón fyrir alls konar bíóblandi-í-poka úr þessari seríu Wicks og er myndheimur múdsins alveg jafn geislandi og kóríógrafían sem haugur listafólks getur montað sig af. Dýnamíska litapallettan er enn eina ferðina einn hápunktur andrúmsloftið og það er erfitt að gefa stórmynd ekki stig sem kemur með skondna tilvísun í einhverju frægustu ramma kvikmyndarinnar Lawrence of Arabía og ekki ólíklega óbeina vísun í grínmyndina Hot Rod. Djókurinn allavega lendir. 

Talandi um liti. Það er örlítið öðruvísi tónninn að þessu sinni á litlu fílósófíunni, ballettnum, samtölum og sögunni með öllu, enda örlítil stokkun í handritsteyminu. Nú er ‘pölpinn’ strípaður meira frá og dökki húmorinn, skrípóið botnað í sjötta gír, biblísku yfirtónarnir eru yfirþyrmandi og fílósófíurnar dýpri, sem skilar úr sér með príma brag meistaralegri blöndu af vestra gamla skólans og austurlenskum bardagamyndum, á leveli sem leikstjórinn/stönt-séníið (og fyrrum áhættuleikari Keanu) Chad Stahelski og aðalleikarinn hafa ekki snert síðan upprunalega myndin í The Matrix seríunni var gefin út. Jú, ókei. Laurence Fishburne fær auðvitað að fagna smá líka og vera með.

John Wick er naglharður, með útgeislun en viðkunnanlegur líka innan um hafsjó af óþokkum, leigumorðingjum, stríðsþjörkum, mjúkum bardagamaskínum og óstöðvandi villidýrum. Betri fréttir koma þó í formi stórhöfðingja eins og Donnie Yen, í brillerandi rullumixtúru af Zatoichi ef stiginn úr Wong Kar-Wai mynd). Yen er á flesta og alla vegu jafningi Reeves. Eðlilega snæðir síðan Bill Skarsgård á hverri sviðsmynd eða senu – og er yndislega, djöfullega og aumingjalega illur á sínum stað. Þetta staðfestir að hann þarf ekki dólgslæti og trúðagervi til að skara fram úr sem trúverðugt gerpi á skjánum.

Síðan höfum við Ian McShane, Rina Sawayama, Natalia Tena, Hiroyuki Sanada, Shamier Anderson og Clancy góðkunni Brown sem allir eru fullkomlega meira en bara annað hvert skrautið á skjánum. Svo skal það segjast eins og er að Lance Reddick hefur alltaf verið ókrýndur laumukóngur John Wick seríunnar. 

Þessar John Wick myndir hafa þrepað sig upp (jafnvel haltrað, sprett og skriðið) í það að vera ekkert annað en masterklassa-keyrsluveislur, þar sem saga og þróun bugaðrar en granítharðrar hetju mótast í gegnum magnandi hasarinn þar sem hann bókstaflega lemur djöfla sína frá sér í leit að endurlausn, og sjálfum sér í raun. Það er eitt að segja sögu sem reglulega kallar eftir slagsmálum og eltingarleikjum, en að segja söguna með slagsmálunum, hnífakeppnunum, hestareiðunum og byssuhvellunum er snúinn galdur. ‘Fury Road’ er til dæmis eitt skýrasta dæmið um hvernig hasarmynd leggur út framvindu og sýnir persónusköpunina mest megnis þögult og með gjörðum án þess að missa nokkur tök á adrenalíninu. 

Það þykir í kaupbæti merkilega frískandi hvað Wick-serían er laus við þessa klassísku hasarstjörnu-egó-‘typpafýlu’ sem svo oft hefur prumpast yfir spennumyndir. Titilkarakterinn er lítið að flexa, lítið fyrir að ropa út frösum, lítið fyrir að metast við einhvern annan; hann berst og berst eins og hleypur í gegnum sínar markmiðahindranir eins og óður hestur á sterum… sem nennir þessu ekki. Hann berst til þess eins að hætta að geta barist og fengið loksins að hvílast. Undir lokin á hverri mynd eru áhorfendur orðnir næstum því jafn úrvinda og þungt andandi og aðalpersónan. Reeves er blessunarlega í banastuði eins, mátulega fámáll og hann kann og er þol mannsins á sextugsaldrinum eitthvað sem ætti að láta aðra á sama aldri líta illa út og skammast sín, þó lífið sé vissulega engin keppni.

Það helsta sem mætti setja spurningarmerki við er hvort dramatískari póll myndarinnar valdi tónlegum árekstrum við eina staðreynd, þ.e. hve ómælanlega mikla lógík þarf að hundsa þegar meiðslin og skaðinn sem Wick og fleiri verða fyrir, síendurtekið hrapandi úr háum hæðum, með miklum höggum og varla svo mikið sem skráma á neinum. Fer þá vissulega eftir hentugleika sögu og handrits hvort til að mynda fall eða skot- eða stungusár hafi einhver áhrif á framvindu sögu eða líkama söguhetjunnar. Krókaleiðir eru teknar í efnistökunum, en allt sem er ekki kraðak af beinbrákum, skothvellum og hinu yfirþyrmandi kemst upp með að svindla á eigin lógík. Það er trúlega gegnumgangandi brandarinn; hversu oft er hægt fyrir einn mann að reisa sig aftur á fætur?

Eins og áður skaut yfir, hér eru tæpir þrír tímar af skothvellum, beinbrákum, meiðslum, pósum og príma ofbeldis-orkestra eins og best skal panta. Ef kjálkinn á viðkomandi er ekki örlítið dofinn yfir minnst þremur til fjórum risasenum úr þessari mynd (stykkorðin ku vera ‘Osaka, Sigurboginn, ‘tómt hús’ og tröppur…), þá veit ég ekki hvað einstaklingurinn kallar flotta hasarmynd. Endirinn er sömuleiðis sterkur. Fínt að enda á lágstemmdara uppgjöri en annarri bombunni. Þó endirinn sé vissulega sprengja á sinn hátt. 

Heili undirritaðs óskast. Hann gæti hafa sprungið óvart á tímabilum. Ef ekki þá lekið út um augu og eyru. Svoleiðis upplifun fer yfirleitt vel með poppinu.

.