Oppenheimer: Hvellur og skellur brautryðjanda

Tómas Valgeirsson skrifar:


“Now I Am Become Death, the Destroyer of Worlds” 

Þetta voru hin frægu orð J. Roberts Oppenheimer, oft kallaður ‘faðir atómsprengjunnar,’ en orðin koma úr trúartexta Hindúa. Lét hann frasann falla eftir að fyrsta kjarnorkutilraunin varð að veruleika. Heimurinn yrði aldrei samur til frambúðar og margir sem unnu að þróun sprengjunnar töldu sér trú um að hún myndi mögulega getað stytt stríðið og bjargað fleiri mannslífum en ella. En þá fór önnur keðjuverkun af stað. Öllum fagnaðarlátum fylgdu fljótt miklar hremmingar og þarna kristallast í rauninni kjarninn sem gerir þessa sögu að svo miklu bíói.

Ef það er einhver kvikmyndagerðarmaður sem elskar sögur af þjáðum en framúrskarandi snillingum með stóra drauma í kappi við tímann þá er það Christopher Nolan. Hér steypir hann sér beint úr þægindaramma hasarmynda yfir í þá tilbreytingu að tækla mun þyngra efni. Hér hefur hann heldur betur trompað sjálfan sig. Oppenheimer er klikkað gullflykki frá ferköntuðum en frábærum kvikmyndagerðarmanni sem sækir í nýja stíla og á sama tíma í gömul stílbrögð frá sér sjálfum. 

Myndin er afar frjáls aðlögun á bókinni ‘American Prometheus: The Triumph and Tragedy of J. Robert Oppenheimer‘ og úr verður einkennilegasta og ein mest frískandi seinni tíma útkoma eða nálgun á ‘biopic-formúlunni. Verkið á margt sameiginlegt með hráa, ögn abstrakt, mannlega, jafnvel svartsýna og minimalíska kvikmyndagerðarmanninum sem gerði Memento, Following og stuttmyndina Doodlebug. Aðeins meiri tennur, tilraunasemi og klassi er kominn í leikstjórann aftur sem skilar sér í tignarlegri samsuðu af klínískum dramatrylli og tens karakterstúdíu.

Það er heilmikið umfang í sögunni og framleiðslupeningurinn sést ágætlega á skjánum. Heilt yfir er það samt handritið sem grípur mest og samtölin eru betri en Nolan hefur skrifað í áraraðir. Það bregst heldur ekki hvernig tekist hefur að stilla upp spennandi strúktúr í kringum tvær ólíkar tímalínur (og tilheyrandi frásagnarstíla, þar sem annar er t.a.m. í svarthvítu) sem gefur frískan tón á þegar óhefðbundna en massaskemmtilega ævisögumynd. Herlegheitin eru síðan límd saman með glæsilegri kvikmyndatöku hjá Hoyte van Hoytema, öflugri samsetningu klipparans Jennifer Lame, stingandi strengjum þrumutónlistar frá Ludwig Göransson, vandaðri sviðsumgjörð sem selur þetta tímaflakk og nánast óumdeilanlega öflugasta burðarleikaranum í Nolan-mynd til þessa – loksins er Cillian Murphy orðinn meira en aðeins fastagestur í bakgrunni hjá leikstjóranum. 

Flakkað er ótt og títt á milli tímalína en handrit Nolans hólfar heildarsöguna í þrjá sterka áherslupunkta; Forsagan (kynningin), framkvæmdin og afleiðingarnar. Um það bil klukkutími fer í hvern áðurnefndan þátt og á leikstjórinn skilið prik fyrir að þéttpakka þessa þrjá klukkutíma vel án þess að myndin virki á nokkurn hátt ruglingsleg, stöppuð, fljótfærnisleg, holótt eða drollandi. Nolan sóar ekki stakri mínútu og einbeitir sér af heilum hug að ferlinu, aðferðafræðinni, teymisvinnunni, óvissunni, fórnunum sem fylgir snilligáfunum og öllu því sem gerði Oppenheimer umdeildan og áhugaverðan. Einnig skoðar hann hvers vegna frumkvöðullinn með hattinn ætti að vera séður sem einn mikilvægasti maður mannkynssögunnar. Hugsunin með frásögninni er ekki að upphefja sigur lítilmagna eða koma út sem víti til varnaðar, heldur meira kannski tragísk sálumessa draumóra.

Oppenheimer breytti heiminum með atómsprengjunni. Í kjölfarið leiðir það af sér þróun sem gerði heiminn að verri stað þegar fjöldaframleiðslan hófst. Oppenheimer spyr sjálfan sig óbeint að því hvort hann eigi að vera stoltur af afrakstrinum eða fyllast eftirsjá og sjálfshatri yfir öllu því sem útkoman táknar fyrir framtíðina. 

Skoðum eina grillaða og ferlega ýkta hliðstæðu; Þegar Nolan gerði bombuna The Dark Knight var skyndilega eins og hann hafi orðið ósigrandi og margtilbeðinn. Sú kvikmynd breytti óneitanlega stórmyndaheiminum í Hollywood og ekki síður ofurhetjugeiranum; til hins betra og verra. Þessi ‘realismi’ (e. ‘dark & gritty’ stíll) Nolans varð svo kóperaður og margsinnis endurunninn af öðrum að úr varð leiðinlegt trend sem skyggði talsvert á upprunalegan ferskleika Nolans.

Nú blasir þarna vissulega strax við gríðarlegur stigsmunur á afreki mannsins sem fann upp á kjarnorkusprengjunni og þess einstaklings sem gerði stórmynd um Batman og kom af stað leiðinlegu trendi. En Nolan reynir eins og hann getur með skrifunum, eða kemst ekki hjá því, að spegla sig í Oppenheimer af öllum krafti og setja sig lauslega í hans spor.

Án þess að það bitni endilega á gæðunum þá snýst kvikmyndin í raun og veru um það að segja okkur trekk í trekk hvað J. Robert Oppenheimer er frábær; hvað það er erfitt að vera magnaður ofurheili, hvernig það er að vera virtur og tilbeðinn, hvað ástríðufullur leiðtogi getur afrekað með sterku teymi sínu, hvað mennirnir í jakkafötunum eru miklir fýlupúkar, hversu mikið þú þarft að svara fyrir sjálfan þig og þín vinnubrögð í sköpuninni þegar hún er komin út í heiminn, hvað börnin í lífi þínu eru mikið aukaatriði og hvað konurnar gera ekkert annað en að styðja þig og þinn málstað. Því er aldrei hægt að undirstrika það nógu oft hversu geislandi kaldhæðið það er að eiginkona Nolans, Emma Thomas, hefur framleitt um það bil allar hans myndir. Vænn fjöldi sagna þar sem makarnir eru annaðhvort farangur þjáningar í formi plottmaskínu eða hreinlega aukaatriði.

Með sístækkandi safni af kvikmyndatitlum hafa mynstrin í Nolan-myndum verið sífellt áhugaverðari í tengslum við algeng þemu eða sameiginleg einkenni; til að mynda hversu oft kærasta/eiginkona/viðhald deyr á einhverjum tímapunkti til að gefa aðalpersónunum ( alltaf karlmönnum) hindrun og að lokum hvata til að komast frá A til B eða C. Þessi þráður verður nokkuð mikið áberandi eftir því sem árin líða.

Skautum snöggvast í gegnum dauðu makana; Í Memento var sögupersónan að hefna dauða eiginkonu sinnar sem dó ekki beinlínis fallega (og orsök dauða hennar reynist flóknari en blasir við í fyrstu). Insomnia er á gráu svæði en þar snýst allur söguþráðurinn um hvort sögupersónan hafi myrt liðsfélaga sinn eða ekki. Í Batman-þríleiknum er fyrrum kærasta söguhetjunnar drepin á hádramatískan hátt.

Síðan er það The Prestige. Hún er í hálfgerðum sérflokki en þar er ekki bara ein heldur tvær eiginkonur sem mæta grimmilegum örlögum til að keyra upp spennuna í samkeppni tveggja listrænna manna. Lykilkarakterinn í Inception eyðir allri myndinni í að gera upp samviskubit sitt við að hafa óbeint myrt spúsu sína, sem herjar á hann í árásargjörnum svipleiftrum í gegnum söguna. Aðalmaðurinn í Interstellar saknar látinnar eiginkonu sinnar, illmennið í Tenet þolir ekki sína konu og viðhaldið í Oppenheimer mætir sorglegum örlögum. Upp úr stendur kannski Dunkirk, sem átti þó lítinn séns því þar er varla kona í augsýn. Hvort það teljist framför eða ekki er erfitt að segja. Spúsa leikstjórans getur best sagt til um það.  

(Ég tek þó fram að ég elska margar af þessum myndum. Þetta er bara svo… áhugavert!)

Persónusköpun er orðin fyrirsjáanleg þegar kemur að kvenfólki í Nolan-myndum og er það ferlega miður í ljósi hversu fullpakkaðar þær eru oftast af fólki eða fígúrum. Að þessu sögðu finnst mér reyndar Emily Blunt og Florence Pugh geysilega minnisstæðar og tilþrifamiklar í því litla sem þær fá úr að moða í Oppenheimer. Þetta mætti reyndar segja um flestalla á skjánum sem heita ekki Cillian Murphy.

Það er ekki bara geysilega einbeittur, margslunginn og bitastæður leiksigur Murphys sem skarar fram úr í myndinni, heldur á hann myndina skuldlaust og skammarlaust en fær auðvitað líka að deila þessum leikvelli með fjölda jafningja sem koma, brillera og fara. Fyrstan má nefna Robert Downey Jr. en síðan Josh Hartnett, Matt Damon og Tom Conti (sem Albert Einstein). Þeir bera einnig hressilega af og fá stóra bita að japla á í sínum rullum. Þar eru þeir heppnari en flestir aðrir.

Ef við ætlum út í karakter- og leikarasúpuna þá er þetta trúlega stærsti og frægasti leikhópurinn sem Nolan hefur smalað saman til þessa. Mætti jafnvel færa rök fyrir því að Oppenheimer sé enn ein Hollywood-myndin sem neyðist til að fylla upp í gífurlegan fjölda persóna með þekktustu andlitunum til þess að áhorfendur eigi auðveldara með að hafa tölu á liðinu eða nöfnunum. Grínlaust, tékkið á þessu cast’i…. við erum að tala um nöfn eins og Jason Clarke, Alden Ehrenreich, Rami Malek, Jack Quaid, Alex Wolff, David Krumholtz, Gary Oldman, James Remar, Tony Goldwyn, Kenneth Branagh, Matthew Modine, Benny Safdie, Dane DeHaan, Olivia Thirlby og MIKLU fleiri…

Myndin hefur verið víða gagnrýnd fyrir skítkalt yfirbragð í mannlega hlutanum ásamt því að sýna ekkert frá hlið Japana eftir sprengjuárásina á Hiroshima og Nagasaki. Sjálfur get ég ómögulega tekið undir að það hefði fitað söguna betur eða kjötað myndina. Þvert á móti finnst mér mesti krafturinn vera akkúrat þessi 90% fókus á vísindamanninn einan og ringulreiðina frá hans taugatrekkjandi sjónarhorni. Allt er mjög formfast og klínískt frekar en melódramatískt.

Kvikmyndinni tekst akkúrat að segja margt og allt sem við sem áhorfendur þurfum að vita um þennan Oppenheimer til að allt komi heim og saman í fínni lendingu og þá án þess að mjólka út auka baksögum og annars konar uppfyllingum.

Oppenheimer er hljóðlát og bombastísk; magnþrungin, dúndurskemmtileg, fyndin á tíðum, truflandi og dáleiðandi til skiptis. Kannski er orðið langþreytt sport að lofsyngja Nolan svona mikið en þetta gæti endað sem eitt af bitastæðustu verkum þessa manns þegar horft er yfir ferilinn. Hið sama gildir svo sem um Murphy. Ef leikstjórinn er heilinn á bak við heildarverkið þá er það tvímælalaust aðalleikarinn sem er púlsinn.  

Og þvílíkur púls! 

Í styttra máli:
Fyrirtaks nálgun á ‘biopic’ sögu sem er vel unnin og grípandi.
Algjör „pabbamynd en af betri gerðinni.