Bakarí, undirheimar og ótti – fyrsta kvikmynd Fjölnis í fullri lengd

Leikstjórinn Fjölnir Baldursson, sem vakti athygli með stuttmyndinni Rán og hlaut meðal annars Platinum Award á Mindfield Film Festival í Los Angeles árið 2021, kynnir nú sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd, Ótti.

Myndin hefur verið í vinnslu í um það bil þrjú ár og er sjálfstæð framleiðsla frá Sober Films þar sem Fjölnir sér sjálfur um leikstjórn og klippingu, með Baldri Páli Hólmgeirssyni sem aðstoðarklippara.

Sagan fjallar um ungan mann sem býr í Reykjavík og vinnur í bakaríi, þar sem hann kynnist ólíkum einstaklingum, meðal annars fólki úr undirheiminum. Hann stendur frammi fyrir erfiðu vali: að dragast inn í heim undirheimanna eða fylgja hjarta sínu.

Leikarar eru Roman Ægir og Tommi Þór Guðmundsson í aðalhlutverkum, auk Halldóru Harðar, Tönju Lífar Traustadóttur, Arnfinns Daníelssonar og Jónínu Margrétar Bergmann. Handritið er eftir Roman Ægi og Fjölni Baldursson.

Ótti verður forsýnd í Reykjavík 2. desember og á Ísafirði 5. desember, auk sérstakrar forsýningar í Asti á Ítalíu 29. nóvember.
Frumsýningardagur í almennum sýningum verður tilkynntur síðar.