Margir hugsa um kirkjukóra sem eitthvað rosalega heilagt

Heimildamyndin Til Dyflinnar eftir Heiðar Aðalbjörnsson var frumsýnd í Bíó Paradís þriðjudaginn 25. nóvember kl. 19:00. Myndin fylgir Kór Keflavíkurkirkju í óvenjulegu og persónulegu ferðalagi til Dyflinnar, þar sem flutt var íslensk messa tileinkuð írsku rokkhljómsveitinni U2.

Í myndinni fylgjumst við með kórnum frá fyrstu æfingum til ferðalagsins sjálfs og fáum innsýn í þá vinnu sem liggur að baki slíku verkefni. Kórastarfið er jafnframt sýnt sem mikilvægur hluti af samfélaginu, þar sem fólk kemur saman, syngur og byggir upp tengsl.

„Þetta er bara þverskurður samfélagsins. Hér eru allir jafnir,“ segir Arnór Vilbergsson, stjórnandi kórsins í samtali við Kvikmyndir.is

Kórinn samanstendur af fólki úr ólíkum áttum samfélagsins sem kemur saman í gegnum kórastarfið og tónlistina að hans sögn.

Myndin er fyrsta „alvöru“ kvikmynd Heiðars, en hann sá sjálfur um leikstjórn, upptökur og klippingu. Í samtali við blaðamann segir hann ferlið hafa verið bæði lærdómsríkt og gefandi. „Ég fékk að kynnast fólkinu í kórnum og fylgjast með því undirbúa sig fyrir þessa U2-messu. Margir hugsa um kirkjukóra sem eitthvað rosalega heilagt, en þetta er í raun bara alls konar fólk úr samfélaginu sem kemur saman til að syngja. Það var mjög fallegt að fylgjast með hvað metnaður og samstaða getur skapað.“

Heimildamyndin er um 45 mínútur að lengd, en að sögn höfundarins var það meðvitað val: „Það var ekkert verið að teygja lopann. Við vildum bara segja söguna af þessu ferðalagi, hreint og beint.“

Miðasala og sýningartímar:
bioparadis.is og Kvikmyndir.is