Síðastliðinn föstudag sást til tveggja Star-Wars aðdáenda á flakki um bæinn. Fyrst sást til þeirra á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar þar sem þeir stóðu í Storm-Trooper búningum stýrandi umferðinni með geislabyssum. Flestir tóku vel í þetta og flautuðu eða hrópuðu ”The force is strong” að þeim en sömuleiðis voru einhverjir uppreisnarseggir inná milli sem reyndu að fæla þá í burtu með því að kasta kókómjólkurfernum í þá.
Síðar fréttist af þeim í Kringlunni þar sem þeir voru að spjalla við ungmenni um ágæti Star-Wars myndanna en fljótlega var uppreisnarherinn aftur á ferðinni og fylgdu öryggisverðir Kringlunnar þeim út eins og gott atriði í Star-Wars mynd.
Undir kvöld voru þeir síðan komnir í Smáralindina þar sem þeim var tekið opnum örmum, enda minnir Smáralindin óneitanlega á eitt stk. Star-Destroyer. Eftir myndatökur og faðmlög við gesti, sterabolta og gangandi fóru þeir inní Smárabíó þar sem verið var að frumsýna kvikmyndina Fanboys. Haft var eftir öðrum Storm Troppernum að allir Star-Wars áhugamenn sjái hluta af sjálfum sér í þessari mynd og hlegið sé frá upphafi til enda.


