Shock Till You Drop tilkynnti að leikstjóri Wrong Turn 3, Declan O’Brien, segist ætla að endurgera The Little Shop of Horrors, og þá er verið að tala um Roger Corman-myndina frá 1960, en ekki söngleikinn frá ’86. Þetta mun þá vera þriðja sinn sem þessi saga er kvikmynduð.
O’Brien segist hafa tryggt sér réttinn og að hann bíður núna bara eftir fjármagni. Myndin er áætluð að vera talsvert umfangsmikil, ólíkt gömlu myndinni.
O’Brien neitar hins vegar að segja hvaða stefnu hann ætlar að taka með þessari mynd. „Við skulum orða þetta þannig,“ sagði hann í viðtalinu, „þetta verður allt öðruvísi útgáfa af þessari sögu en við höfum séð áður. Höfum aldrei séð neitt þessu líkt.“
Sagan – fyrir þá sem ekki þekkja hana – segir frá léttlyndum manni, Seymour, sem uppgötvar að nýja plantan sem hann keypti nærist á blóðdropum. Því meira sem þessi planta fer síðan stækkandi, því svangari verður hún.
Ekkert er enn vitað hvenær myndin ætti eftir að koma út.

