Short Circuit endurgerð komin af stað

Þau ’80s börn sem heimsækja þessa síðu reglulega ættu að muna eftir Short Circuit-myndunum, sem fjölluðu um elskulega vélmennið Johnny 5. Hann var líka ein helsta fyrirmynd vélmennisins Wall-E, eins og mörgum þykir vel áberandi. Gerðar voru tvær myndir um þennan karakter og þótt gagnrýnendur voru ekki mjög góðir við þær, þá voru þær taldar klassískar af mörgum fjölskyldum.

Það eru svosem engar nýjar fréttir að Hollywood skuli hafa ákveðið að endurgera fyrstu myndina en nýlega voru að bætast við upplýsingar um hvaða leikstjóri hefur verið valinn, og viðbrögð manna eru allt önnur heldur en jákvæð. En sá sem mun sitja við stjórnvölinn er enginn annar en Steve Carr, sem er sami maðurinn og færði okkur eðalgrínmyndir á borð við Paul Blart: Mall Cop, Are We Done Yet?, Rebound og Daddy Day-Care.

Búist er við því að nýja Short Circuit-myndin komi í bíó á þarnæsta ári. Um að gera að telja niður dagana.