Ófrýnilegur Gísli fær frábærar viðtökur

Eins og fram hefur komið verður stórmyndin Prince of Persia, sem unnin er eftir samnefndum tölvuleik, frumsýnd 28. maí nk. Íslendingar eiga mann á meðal leikenda eins og oft hefur einnig komið fram en Gísli Örn Garðarsson leikur erkióvin hetjunnar í myndinni, „The Visier“. Hetjuna leikur hinsvegar stórleikarinn Jake Gyllenhaal.

Dreifingaraðilar myndarinnar hérlendis, SAMbíó, hafa fengið að sjá fyrstu stikluna úr myndinni og segir í fréttatilkynningu frá bíóinu að Gísla Erni bregði þar fyrir nokkrum sinnum, og er hann all ófrýnilegur að sjá.

Í pósti sem SAM fékk frá Disney á dögunum segir að myndin hafi nýverið verið sýnd völdu úrtaki áhorfenda og viðtökur hafi verið „í einu orði sagt frábærar“, eins og það er orðað í tilkynningunni. Þær hafi verið jafngóðar ef ekki betri en þegar Pirates of the Carribean var prufusýnd fyrst. Myndin fékk sérstakt hrós fyrir góða persónusköpun og húmor og kom jafn vel út hjá strákum og stelpum sem sáu prufueintakið, ungum sem öldnum.