Það er engan bilbug að finna á framleiðendum Saw myndanna þrátt fyrir að Saw 6 hafi valdið vonbrigðum í miðasölu þegar hún var frumsýnd á dögunum.
Framleiðendur hafa nú sagst ætla að gera sjöundu myndina og að hún verði í þrívídd. Við það kætast hryllingsmyndaunnendur ákaft enda verður upplifunin enn mikilfenglegri og blóðgusurnar svakalegri.
„Svo lengi sem við erum að græða peninga á þessum myndum þá höldum við áfram,“ sagði einn af framkvæmdastjórum Lionsgate, Michael Burns, á Media og Money ráðstefnunni í New York. Með þessu vísar Burns líklega til þess að myndir eins og Saw eiga sér oft gott framhaldslíf utan bíósalanna, svo sem á DVD og í niðurhali ýmiskonar.
„Til dæmis seljum við 2.000 DVD diska af Dirty Dancing á hverjum einasta degi, og það meira að segja þó það séu liðin 20 ár frá frumsýningu myndarinnar,“ bætti hann við.
Hann sagði að Saw 6 hefði lotið í gras á frumsýningarhelginni fyrir annarri hrollkvekju, Paranormal Activity, en talið er að hún fari bráðum upp fyrir 100 milljónir Bandaríkjadala í tekjur. Saw 6 hefur hinsvegar aðeins þénað 27 milljónir dala eftir 3 vikur í sýningum.

