Johnny Depp er langt kominn í samningaviðræðum varðandi það að leika í mynd sem byggð er á ævi mexíkóska byltingarsinnans Pancho Villa. Myndin ber hið áhugaverða nafn „Seven Friends of Pancho Villa and the Woman with Six Fingers“ og fer alfarið fram á spænsku.
Pancho Villa var uppi snemma á 20.öld og ríkti yfir Chihuahua (já það er staður, ekki bara hundur) í Mexíkó þar sem hinir fátæku þekktu hann sem frelsissinna en hinir ríku kölluðu hann bandito. Hann stal frá hinum ríku og gaf þeim fátæku svo saga hans svipar mikið til Hróa Hattar nema það að Pancho Villa er grjótharður nagli sem, í bókinni sem handritið er byggt á, eyðir frístundum sínum í stanslausar skemmtanir, tequiladrykkju og kvenskap.
Myndin verður leikstýrð af hinum serbneska Emir Kusturika sem vann síðast með Johnny Depp við myndina Arizona Dreams (1993). Tökur á „Seven Friends of Pancho Villa and the Woman with Six Fingers“ hefjast líklega ekki fyrr en árið 2011 vegna skuldbindinga Depps við aðrar kvikmyndir.
Annar leikari sem hefur verið orðaður við myndina er Salma Hayek. Það kemur svo sem ekkert á óvart því nafn hennar tengist næstum því undantekningalaust öllum stórmyndum sem fjalla um Mexíkó á nokkurn hátt. Búast má við að hún taki að sér hlutverk sex-fingruðu konunnar.
„Seven Friends of Pancho Villa and the Woman with Six Fingers“ er ekki fyrsta myndin sem gerð hefur verið eftir ævi Pancho Villa en engin þeirra mynda hefur fengið neinar sérstakar viðtökur hingað til. Það eitt að Johnny Depp hafi valið að leika í myndinni segir þónokkuð um gæði handritsins því maðurinn hefur úr óteljandi handritum að velja. Á meðan myndin er ennþá á byrjunarstigi og engir trailerar komnir má allavega byrja strax að hlakka yfir því hversu mikið augnakonfekt hún verður með þessi tvö í hlutverkum. Það er ekkert mál að horfa framhjá sex fingrum, er það ekki?

