Sony rífst við Raimi – aftur

IESB.net greinir frá því að framleiðslan á fjórðu Spider-Man myndinni sé komin í jólafrí en þó endaði ekki allt með sáttum síðast því Sony Pictures og Sam Raimi eru aftur farin að berjast um hvaða illmenni skal nota.

Vefsíðan segir að Raimi vilji nota karakterinn Vulture, eins og hann vildi gera í nr. 3. Upprunalegi söguþráður þriðju myndarinnar átti einungis að snúast í kringum Vulture og Sandman, sem áttu að vera félagar sem sluppu úr fangelsi á sama tíma. Venom átti aldrei að vera partur af sögunni og voru það framleiðendur sem báðu um að setja hann inn. Síðan, eins og flestir vita, var Spider-Man 3 mest gagnrýnd fyrir að vera með ójafnan söguþráð og alltof margar persónur. Raimi hefur sjálfur viðurkennt að sú mynd hafi verið misheppnuð.

Þrátt fyrir augljós mistök framleiðenda að „fikta“ í söguþræðinum bara til að troða inn vinsælasta illmenninu þá lítur út fyrir að þeir séu að lenda í sömu gryfju aftur. Ekki er vitað nákvæmlega hvað þeir vilja, en vitað er að þeir eru ekki hrifnir af því að nota Vulture, sem að sjálfsögðu er að gera Raimi vitlausan. Hann sem ákvað einungis að snúa aftur vegna þess að honum var lofað meira frelsi.

Framleiðslan heldur áfram á næsta ári. Við vitum ekkert meira þangað til. Jú, reyndar er búið að ákveða að titillinn verði skrifaður svona: Spider-M4N – Voða hipp, ekki satt?