Avatar enn efst!

Þrátt fyrir að Sherlock Holmes hafi átt yfirhöndina á jóladag í BNA þá var það Avatar sem náði efsta sætinu aðra helgina í röð á endanum. Reyndar var síðastliðin helgi alveg furðu merkileg hvað bíóaðsókn varðar (greinilegt að margir nenntu ekki að hanga í jólaboðum og skruppu þ.a.l. í bíó í staðinn – reyndar svipað hérna heima með Avatar og Bjarnfreðarson), en þó svo að Holmes hafi lent í öðru sætinu þá sló hún met í opnunaraðsókn á jóladag. Myndin kostaði $80 milljónir í framleiðlsu og er samtals búin að græða $65,4 milljónir, sem er alls ekki slæmt og undir venjulegum kringumstæðum hefði þetta talist frábær opnun. Spurning hversu mikið hún hefði grætt hefði James Cameron ekki komið æðandi inn með sína tröllamynd nokkrum dögum áður.

Avatar kom heldur betur á óvart í aðsókn yfir jólin, en hún tók inn aðeins 3% minna en hún þénaði þegar hún var frumsýnd (og er samtals komin með $212 milljónir allt í allt, og þá bara í bandaríkjunum), sem er alveg ótrúlegt og gríðarlega sjaldgæft fyrir mynd sem er hvorki framhald né byggð á útgefnu efni.