Kalkúnar síðasta árs!

Vondar myndir eiga aldrei skilið að fá of mikla umfjöllun, þess vegna ætla ég að hafa þetta stutt en engu að síður hnitmiðað.

Hér fyrir neðan ætla ég að koma með minn lista yfir 10 verstu myndir ársins 2009.

(Flestir ættu að kunna þetta. Versta myndin er alltaf nr. 1 – Þess vegna byrja ég „aftast“ og þrepa mig svo niður)

10. LAND OF THE LOST

Will Ferrell + glataður söguþráður + lélegar brellur + ennþá verri húmor = *Geisp*

9. BRIDE WARS

– Jafnvel þótt stelpurnar hefðu rifið hausinn af hvor annarri í lokin á þessari mynd þá hefði hún samt ekki verið neitt meira en slöpp og misheppnuð ræma sem vill vera kolsvört kómedía en þorir því ekki.

8. THE PINK PANTHER 2

– Fyndið að listinn minn í ár skuli mestmegnis innihalda lélegar hrollvekjur og fjölskyldumyndir.

Steve Martin hefði átt að hlusta á gagnrýnendur eftir fyrstu myndina. Ég skil heldur ekki hvernig enginn gat lesið út úr merkjunum því sú mynd fékk svo slæmar viðtökur á prufusýningum að henni var frestað um heilt ár. Það er mér óskiljanlegt hvernig aðstandendur gátu verið bjartsýnir á framhald.

7. SORORITY ROW

– Þessi mynd var svo slæm að ég næ ekki einu sinni að muna af hverju ég hataði hana. Hún hefur náð að eyðast sjálfkrafa úr minninu. Ég man bara að hún lét I Know What You Did Last Summer líta út eins og The Descent í samanburði.

6. THE FINAL DESTINATION

– Beint afrit af mynd nr. 3, sem var sjálf afrit af nr. 2, sem var – alveg rétt – kómísk kopía af fyrstu myndinni.

5. PAUL BLART: MALL COP

– Betri titill væri „Die Hard… for Dummies“

4. HALLOWEEN II

– Rob Zombie hefur óheilbrigt fetish gagnvart white-trash stílnum. Stundum virkar það, stundum ekki. Með Halloween II tók hann einhvern þekktasta morðingja kvikmyndasögunnar og breytti honum í urrandi róna með sítt skegg og „mommy issues.“ Ógnvekjandi?? Engan veginn. Myndin er bara leiðinleg og langdregin.

3. PAPER HEART

– Þessi litla gerviheimildarmynd hefur miklu meira egó heldur en Juno og Jennifer’s Body samanlagðar. Hún einkennist af því að hver einasta manneskja á skjánum er pirrandi. Innihaldið hérna hefði rétt svo dugað fyrir 20 mínútna þátt en þessi mynd teygir úr efninu eins og hún mögulega getur. Ímyndið ykkur leiðinlegan þátt af versta raunveruleikaþætti sem þið hafið séð nema með viðbættum senum sem sýna á bakvið tjöldin.

2. NIGHT AT THE MUSEUM 2

– Enn eitt „meira-af-því-sama-bara-verra“ framhald. Þetta er akkúrat það sem gerist þegar einhver tekur miðjumoðsmynd og býr síðan til framhaldsmynd sem er nákvæmlega eins bara ófyndnari og leiðinlegri. Það eina jákvæða var Amy Adams, í glæsilega þröngum buxum.

1. OLD DOGS

– Hólí-f**k! Ég held að mér líkaði betur við John Travolta þegar hann tók þátt í framleiða rándýra og handónýta vísindaskáldsögu sem var ekkert annað en stórt ástarbréf til Vísindakirkjunnar.

Það vill svo skemmtilega til að ég sá þessa mynd á sama degi og ég sá Avatar í fyrsta sinn, og kaldhæðnislega gapti ég út báðar myndirnar, þó af allt öðrum ástæðum í sitthvoru tilfellinu. Ástæðan fyrir því að ég sat með neðri kjálkann á gólfinu þegar ég sá Old Dogs var sú að ég gat ómögulega trúað því hversu mikil niðurlæging hún var fyrir alla sem voru nefndir í credit-listanum. ALLA! Ekki nóg með það að hún byrji hræðilega heldur versnar hún og versnar á 10 mínútna fresti. Hún er líka stöðugt að skipta um plott. Eina stundina fjallar hún um eitt en síðan gengur hún út á eitthvað allt annað. Þessar svokölluðu persónur sækjast bara í brandaranna, og vægast sagt slæma brandara.

Ég ætti að fá verðlaun fyrir að freistast ekki til að spila tölvuleiki í gemsanum mínum á meðan ég horfði á þessa mynd. Ég… gjörsamlega… hata… hana.

Ég vil biðjast afsökunar á slettum og reiðum orðaforða. En þá spyr ég:

Hvaða kalkúnar eru á ykkar lista??