Fleiri örfréttir!

Það er aldeilis flóð af tíðindum í þessari viku!

Sony hefur staðfest að nýja Spider-Man myndin (leikstýrð af Marc Webb, ekki Sam Raimi) verði í 3-D. Hljómar skemmtilega fyrir utan það að myndin mun mestmegnis fjalla um unglingsárin hjá Peter Parker, miklu meira en 2002-myndin gerði, eða svo er sagt. Ekki alveg mest spennandi atburðarás í heimi til að upplifa í þrívídd. Myndin verður engu að síður frumsýnd þann 3. júlí 2012.

MTV settist niður með handritshöfundum Zombieland (Paul Wernick & Rhett Reese) til að ræða við þá um framhaldsmyndina (Zombieworld?). Þeir sögðust vera komnir með fullt af hugmyndum og planað er t.d. að bæta við fleiri aðalkarakterum, sem slást í för með fjórmenningunum. Meira að segja kemur til greina að bæta við harðri kvenpersónu sem Talahassee (Woody Harrelson) verður hrifinn af.

– Í Kaliforníu fyrir stuttu var haldin lokuð prufusýning á The Expendables. Eftir sýninguna voru nokkrir aðilar sem ákváðu að rýna í myndina og sendu síðan umfjallanirnar sínar inn á AintitCoolNews vefinn. Dómarnir voru misjafnir. Nokkrir elskuðu myndina á meðan einn var alls ekki sáttur. Sylvester Stallone sjálfur las þessar umfjallanir og hafði beint samband við Harry Knowles til að ræða aðeins um neikvæða dóminn og ókláruðu útgáfu myndarinnar. Smellið hér og lesið söguna. Mjög athyglisverð.

– Leikarinn Jason Segel (How I Met Your Mother, Forgetting Sarah Marshall) hefur margoft sagt að draumurinn hans er að gera glænýja Prúðuleikaramynd. Núna er sagt að fullbúið handrit sé tilbúið (sem Segel skrifaði ásamt leikstjóra Marshall, Nicholas Stoller). Ekki nóg með það, heldur ber myndin hið metnaðarfulla heiti The Greatest Muppet Movie of All Time.

Tom Cruise er víst vel til í enn eina Mission: Impossible-myndina. JJ Abrams (sem leikstýrði M:I-3, ásamt Star Trek) mun framleiða myndina með honum en ekki leikstýra þar sem hann er á fullu að vinna í Star Trek 2. Ekki er vitað hvort að Ethan Hunt verði áfram giftur Michelle Monaghan persónunni eða hvort stúdíóin ákveði að fá glænýja gellu.

– Búið er að gefa í skyn að Penélope Cruz gæti leikið eitt aðalhlutverkið í fjórðu Pirates of the Caribbean-myndinni. Cruz fékk nýlega Óskarstilnefningu fyrir hlutverk sitt í myndinni Nine, sem Rob Marshall leikstýrði. Marshall er einmitt leikstjóri fjórðu Pirates-myndarinnar. Johnny Depp snýr annars pottþétt aftur, þrátt fyrir að hann hafi sagt á tímabili að hann væri óviss.

– Sagt er að Myndir Mánaðarins (nýjasti samstarfsaðili Kvikmyndir.is) muni bjóða upp á eitthvað glænýtt í næsta blaði. Eitthvað sem tímaritið hefur aldrei boðið upp á áður. Bíðum öll spennt.

– Undirritaður tók fyrir stuttu skemmtilegt símaviðtal við leikarann Christopher Mintz-Plasse (McLovin!). Viðtalið verður birt í kringum frumsýningu myndarinnar Kick-Ass, sem hann leikur í.

– Að lokum ætla ég að benda á glænýjan „teaser“ fyrir Toy Story 3. Hún verður frumsýnd þann 18. júní í Bandaríkjunum en í lok ágúst (*tár) hér á Íslandi.

Fleiri örfréttir

Ekki nóg með það að það séu allir vel stressaðir fyrir öðrum kreppujólunum og allt vitlaust að gera í búðum landsins heldur er allt á kafi í upplýsingum þessa dagana í afþreyingarheiminum. Hérna eru nokkrar auka örfréttir. Smá bónus, frá mér til ykkar.

– Þessi litli dálkur hjá mér er kominn með lógó. Einfalt orðagrín, en það virkar.

– Samkvæmt SAMbíóunum er búið að færa Sherlock Holmes til 15. janúar á Íslandi. Hins vegar er búið að staðfesta að forsýningar verða í kringum byrjun mánaðarins.

L.A. Times segir að Josh Brolin muni hugsanlega leika í Men in Black 3. Margir halda að hann muni leika arftaka persónunnar hans Tommy Lee Jones, sem hefur ekki enn staðfest þátttöku í myndinni. Will Smith verður hins vegar með, að sjálfsögðu.

– Sem stendur er líklegt að Kvikmyndir.is taki forsýningu á Where the Wild Things Are þann 21. des. Áhugasamir eru búnir að bíða spenntir eftir henni síðan í október. Myndin er ekki frumsýnd fyrr en í lok janúar. Þið sem hafið áhuga á að mæta á þessa sýningu, endilega kommentið (hér eða á Facebook síðunni okkar). Því meiri áhugi sem er fyrir myndinni, því stærri sal fáum við.

Hildur María, fréttamaður á síðunni, neitar að trúa því að Avatar sé góð mynd.

– Nexusmenn sáu líka Avatar um daginn og hafa ákveðið að taka forsýningu á henni fljótlega. Þeir eru víst ótrúlega ánægðir með myndina (þeirra orð eru
besti megablockbusterinn síðan LOTR 1 og brýtur blað í sögu
kvikmyndagerðar. Robert Zemekis og hinir sem eru að vinna með „motion
capture“ eru í sandkassaleik miðað við það sem Cameron hefur gert.“
).
Undirritaður fékk skondin mail eftir að hann sagðist hafa séð myndina
og var kallaður ýmsum fyndnum (og missmekklegum) nöfnum. Keep ’em
coming!

– Plakat er komið fyrir myndina Tron: Legacy. Smellið hér. Einnig var að detta inn plakat fyrir Death at a Funeral endurgerðina. Takið áhættuna hér.

– Þriðja myndin í Twilight-seríunni, Eclipse, verður víst sýnd í IMAX bíóum í bandaríkjunum (þar sem tjaldið er fimmfalt stærra en í venjulegu bíói og gæðin með ólíkindum). Táningsstelpur munu þ.a.l. njóta þess að horfa á glimmerið hans Robert Pattinson í últra háskerpu. Myndin verður frumsýnd næsta sumar.

– Nýjasta (löggu)mynd Kevins Smith fær víst ekki að halda tvíræða titlinum A Couple of Dicks. Titillinn þykir víst of grófur til að auglýsa. Smith segir á Twitter-síðunni sinni að það sé búið að finna nýjan titil, en við fáum ekki að vita hver hann er alveg strax. Fyrsti trailer myndarinnar verður sýndur á undan Sherlock Holmes vestanhafs og dettur líklega inn á netið á svipuðum tíma. Bruce Willis og Tracy Morgan fara með aðalhlutverkin.

Dennis Dugan mun leikstýra rómantískri gamanmynd með Adam Sandler og Jennifer Aniston. Dugan er þekktastur fyrir Happy Gilmore, National Security, The Benchwarmers og Evil Woman.