Batman leikarinn Ben Affleck á í viðræðum um að leikstýra og leika aðalhlutverk í myndinni Witness For The Prosecution, en það er mynd sem gera á eftir smásögu Agatha Christie og leikriti sem fyrst kom í bíó árið 1957. Christopher Keyser skrifar handrit og Affleck mun framleiða myndina ásamt Jennifer Todd, Matt Damon og dánarbúi Agatha Christie.
Billy Wilder leikstýrði kvikmyndagerð sögunnar árið 1957 með þeim Tyrone Power, Marlene Dietrich og Charles Laughton í helstu hlutverkum, en kvikmyndin uppskar sex Óskarstilnefningar, þar á meðal fyrir bestu mynd, besta leikara og besta leikstjóra.
Í upprunalegu myndinni lék Laughton verjanda manns, sem Power lék, sem var sakaður um að myrða auðuga ekkju, en hún hafði heillast svo af manninum að hún arfleiddi hann að öllum eigum sínum.
Eiginkona hins grunaða, sem Dietrich lék, sem í upphafi gat ekki vitnað gegn manni sínum, er kölluð inn sem vitni fyrir sækjandann í málinu, af því að hún var gift öðrum manni þegar hún giftist hinum grunaða.
Hún sakar hann um morðið til að hreinsa samvisku sína. Í hönd fara ýmsar flækjur í anda Agatha Christie sagna, og allt í einu eru margir sem gætu hafa framið morðið.
Affleck leikstýrði síðast Óskarsverðlaunamyndinni Argo. Hann er meðhöfundur næstu Batman myndar, auk þess að leikstýra henni og leika aðalhlutverkið.
Næst má sjá hann í myndinni The Accountant, sem kemur í bíó hér á landi 4. nóvember nk.