Stórmyndin Noah var heimsfrumsýnd í Sambíóunum Egilshöll fyrr í kvöld að viðstöddum leikstjóra myndarinnar, Darren Aronofsky, framleiðanda myndarinnar og öðrum aðstandendum, þar á meðal rokkstjörnunni Patti Smith sem samdi vöggulag sem kemur mikið við sögu í myndinni.
Darren sagði á blaðamannafundi sem haldinn var í tengslum við sýningu myndarinnar að Ísland sé allt í öllu þegar kemur að útliti myndarinnar og umhverfi. Íslenskir litir og áhrif sjái stað í förðuninni, búningunum, litunum, myndlýsingum, íverustöðum fólksins og fleiru og fleiru. Undir það tók Patti Smith.
Darren sagði að hann hefði fyrst komið til Íslands fyrir rúmum 20 árum fyrir tilstilli vinkonu sinnar Tótu ( Þóranna Sigurðardóttir ). „Þettta var árið 1991. Pabbi Tótu bauð mér til Nesjavalla og sagði „hver fjandinn er þetta“, þetta er svo áhugavert! þarna var áhugi minn vakinn. Það var svo ekki fyrr en Vatnasafnið hennar Roni Horn opnaði á Stykkishólmi ( 2007 ) að ég kom aftur. Það sem var fyndið við þá ferð var að ég leigði mér bílaleigubíl á flugvellinum og var spurður hvort ég vildi kaupa framrúðutryggingu, og ég sagði „hvað er það?“ Og ók af stað. Og svo 5 mínútum seinna sprakk rúðan hjá mér, og ég var ekki með neina tryggingu, sem var glatað,“ sagði Aronofsky og hló.
„En fyrir utan það þá var þessi ferð ótrúleg, og eftir það fór það að blunda í mér að þetta landslag gæti virkað fyrir Noah. Svo þegar við byrjuðum að skoða möguleikana varðandi tökustaði þá fórum við að hugsa um Ísland, og leita hér að tökustöðum, og í kjölfarið heyrðum við einnig að stjórnvöld veittu skattalegt hagræði fyrir kvikmyndagerðarmenn.“
Darren var spurður um þá staðreynd að myndin hefur verið bönnuð í þremur löndum. Hann sagði að mesta gagnrýnin hafi komið frá fólki sem ekki hafi séð myndina, en nú þegar séu byrjaðar að birtast jákvæðar greinar í blöðum um myndina, og fólk sé að fylkja sér á bakvið hana.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá blaðamannafundinum.