Um páskana verður frumsýnd glæný þáttaröð með Þórhalli Sigurðssyni í lykilhlutverki sem ber heitið Jarðarförin mín. Þættirnir eru byggðir á hugmynd Jóns Gunnars Geirdals, frasakóngs og athafnamanns og koma þau Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, Baldvin Z, Sóli Hólm og fleiri að handritsgerð seríunnar.
Jón Gunnar var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1 þar sem hann sagði frá nýju þáttunum og reynslunni sem aðstandandi systur sinnar sem greindist með ólæknandi krabbamein. Fréttirnar bárust á meðan undirbúningi seríunnar stóð og hafa síðustu mánuðir verið ljúfsárir í lífi athafnamannsins. Segir Jón Gunnar að þetta hafi allt sett þættina í nýtt samhengi hjá sér. Það hafi þó tekið sinn tíma fyrir seríuna að verða að veruleika.
„Mín eigin jarðarför er hugmynd sem ég fékk fyrir tíu árum og er orðin að sex hálftíma þáttum,“ segir hann. Fæðingin var þó ekki auðveld. Í níu ár bókaði Jón Gunnar fundi með fjölmörgum framleiðendum, sagði frá hugmyndinni en ekkert gekk að láta hana verða að veruleika. Þetta breyttist þó og voru þættirnir loks teknir upp á síðasta ári. „Ég á enn útprentaða neitunina frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og ætla að ramma hana inn einhvern daginn,“ segir hann.
Þegar ljóst var orðið að hugmynd Jóns Gunnars var komin í farveg, og að þættirnir myndu rata á skjá landsmanna, veikist litla systir hans. Í ljós kemur að tíu ára hugmynd Jóns Gunnars um dauðvona mann er að hluta til orðinn veruleiki í hans eigin fjölskyldu. Alma Geirdal systir Jóns Gunnars greindist í annað skipti með illvígt krabbamein sem hafði dreift sér um allan líkamann. Alma hefur talað afar opinskátt um ferlið og veikindi sín. Henni var tjáð að það væri ekkert hægt að gera til að bjarga lífi hennar sem myndi líklega ekki vara lengur en fjögur ár í viðbót.
„Við byrjum að skrifa hugmyndina [að þáttunum] í fyrravor og á sama tíma er hún að berjast við krabbamein. Hún greinist svo aftur og fær þann dóm að hún eigi fjögur ár eftir ólifuð. Það setti verkefnið í nýtt samhengi fyrir mér,“ segir Jón Gunnar.
„Og þetta orð dauðvona. Á von erindi í þetta orð? Hún var búin að vera edrú í góðan tíma og ganga rosalega vel. Svo kemur þetta. Búmm, krabbamein. Og svo er það búið að dreifa sér.“
Ýmsar tilfinningar hafa bærst með Jóni í þessu erfiða ferli og viðurkennir hann að verða stundum vonlítill og reiður. Þá sé mikilvægt að hlúa að andlegri og líkamlegri heilsu.
„Ég finn hjá sjálfum mér oft að ég fæ eins og fólk í krefjandi störfum gerir oft, samviskubit yfir að vera ekki að gera eitthvað. Ég var kannski að horfa á sjónvarpsþátt eða lesa bók en að hugsa; þarf ég ekki að skutla, elda mat eða skeina einhverjum?“ segir hann og skellir upp úr. „Ég þarf markvisst að segja mér, Jón Gunnar; þetta er allt í lagi. Þú mátt gera ekki neitt.“
Bætir upp tapaðan tíma
Í þáttunum Jarðarförin mín fer Laddi með hlutverk manns sem greinist með ólæknandi heilaæxli sama dag og hann kemst á eftirlaun. Hann hefur eytt síðustu áratugunum í tilgangslausa rútínu, fjarlægst fjölskyldu sína og ekki lifað lífinu sem skildi.
Nú eru tvær vikur þangað til hann fer í skurðaðgerð sem mun að öllum líkindum draga hann til dauða. Hann ákveður að bæta upp fyrir tapaðan tíma með því að halda sína eigin jarðarför og vera sjálfur viðstaddur. Það er samt ekki eins einfalt og það hljómar.
Fyrrverandi eiginkonan, einkasonurinn og tengdadóttirin hafa lítinn skilning á þessum áformum, hvað þá barnabarnið sem dýrkar afa sinn og getur ekki hugsað sér að missa hann. Svo flækist málið enn frekar þegar ástin kviknar á ný milli hans og fyrrverandi kærustu, en hún er einmitt presturinn sem á að jarðsyngja hann.