Samkvæmt nýrri frétt á Filmofilia þá mun Amanda Seyfried leika Öskubusku í nýrri mynd sem gera á eftir þessu sígilda ævintýri. Amanda er hvað þekktust fyrir leik sinn í Mamma Mia og Mean Girls.
Allir þekkja Öskubusku söguna, vondu stjúpmóðurina og stjúpsysturnar þrjár sem vilja ekki að Öskubuska fari á ball þar sem sjálfur draumaprinsinn er staddur. En með hjálp vina úr dýraríkinu m.a. og álfakonu tekst Öskubusku að mæta á ballið og heilla prinsinn upp úr skónum. ( eða hann hana upp úr glerskó )
Öskubuska er vinsælt myndefni í bíómyndum, bæði teiknuðum og leiknum, en margir muna sjálfsagt eftir einni útgáfunni sem heitir Ever After með Drew Barrymore í hlutverki Öskubusku og Angelicu Huston í hlutverki vondu stjúpunnar frá árinu 1998.
Amanda vinnur nú að bíómynd um Rauðhettu sem frumsýnd verður í apríl á næsta ári.