Nú þegar Ant-Man er komin í bíó, byrja menn að velta því fyrir sér hvort að gerð verði framhaldsmynd, Ant-Man 2.
Tímaritið Entertainment Weekly ræddi við leikstjóra myndarinnar Peyton Reed daginn sem myndin var frumsýnd í Bandaríkjunum, 17. júlí, og þá var hann óviss með hvort gert yrði framhald eða ekki, en vonaði samt að Marvel myndi bæta Ant-Man 2 á metnaðarfullan verkefnalista sinn.
„Ég myndi elska að gera aðra mynd og þróa persónurnar áfram í mynd sem yrði ekki upprunasaga eins og þessi, heldur hefðum við frelsi til að gera það sem okkur dytti í hug,“ sagði leikstjórinn, sem áður hefur gert myndir eins og Bring It On og The Break-Up.
„Ég á við, það eru klárlega hlutir í lok myndarinar sem þarf að fá svör við. Ég tel að það sé enn mjög margt ósagt, og margt sem þessar persónur geta lagt til málanna til viðbótar.“
En er hægt að nefna einhverja dagsetningu, þ.e. hvenær þetta gæti orðið? „Í besta falli þá yrðum við heppinn að fá tækifæri til að ræða þetta alvarlega, en ég held að allir myndu vilja gera þetta sem allra fyrst,“ sagði leikstjórinn.