Baltasar Kormákur leikstjóri myndarinnar Viking, eða Víkingr eins og hún heitir á íslensku, segir í samtali við Morgunblaðið í dag þriðjudag að alltaf hafi staðið til að fá amerískan rithöfund til að endurvinna handritið að myndinni, en eins og við hér á kvikmyndir.is sögðum frá um helgina hefur Working Title framleiðslufyrirtækið, sem kemur að framleiðslu myndarinnar, ráðið Karl Gadjusek til að endurrita handritið.
„Þegar hann skilar af sér og menn verða ánægðir með þetta þá verða væntanlega næstu skref að fara með þetta í stúdíóið, Universal, og athuga hvort þeir treysta sér í að gera þetta,“ segir Baltasar í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir jafnframt að myndin sé af þeirri stærðargráðu að stór framleiðslufyrirtæki verði að koma að henni, og aðkoma Gajdusek auki líkurnar á því.
Hollywood Reporter sagði frá því að myndin yrði í svipuðum stíl og Braveheart og Apocalypto, og staðfestir Baltasar það í samtali við Morgunblaðið, þ.e. að ekki verði farin „300-leiðin“, en þar á hann við kvikmyndina 300 sem var að miklu leyti tölvuteiknuð, mikið notast við græn tjöld. Víkingurinn verði tekinn raunsæistökum, eins og sagt er frá í Morgunblaðinu.
Ekki verður farin tölvuteiknaða 300-leiðin í Víkingr. Raunsæisleiðin verður farin.