Hasarstjarnan Arnold Schwarzenegger hvetur fólk um allan heim til að gera viðeigandi ráðstafanir vegna COVID-19. Í myndbandi sem hann birti á Twitter-síðu sinni brýnir hann fyrir því að fólk frá aldrinum 65 ára sé í stórum áhættuhópi þegar kemur að veirunni. Nýverið ákváðu yfirvöld Kaliforníu að ráðlagt væri fyrir eldri borgara að halda sér innandyra, en sjálfur er Schwarzenegger 72 ára.
Í umræddu myndbandi sést frasakóngurinn góðkunni með gæludýrum sínum, folaldinu Lulu og asnanum Whiskey, og vonast til að fólk forðist líkamsræktarstöðvar auk þess að snæða á veitingastöðum. „Þess vegna held ég mig heima og borða þar,“ segir Schwarzenegger í myndbandinu og dáist að brosinu hjá asnanum sínum. „Við borðum bara og höfum það gaman.“
Segir í yfirskrift Schwarzeneggers við myndbandið að æskilegra sé að fylgja ráðum sérfræðinga. „Hunsið hálfvitana. Við komumst öll í gegnum þetta saman.“
Myndbandið má sjá að neðan.