Eins og við sögðum frá nýlega þá hefur verið tilkynnt opinberlega að Arnold Schwarzenegger muni snúa aftur í hlutverki Conans villimanns. Síðan þá hefur ekki mikið heyrst af verkefninu, enda Schwarzenegger upptekinn við að kynna mynd sína The Last Stand sem verður frumsýnd 1. febrúar hér á landi.
Í samtali við MTV sjónvarpsstöðina fyrir nokkrum dögum síðan sagði Arnold að hann hafi eytt talsverðum tíma um þónokkuð skeið í að selja Universal kvikmyndaverinu hugmyndina um nýja Conan mynd. „Áhorfendur vilja fá eitthvað fyrir augað. Það sem er mikilvægt við svona Conan verkefni er að þetta verði A-mynd sem verði meðhöndluð eins og myndin 300, eða ein af svoleiðis frábærum myndum, frekar en að gerð verði B-mynd þar sem nokkrir hausar og útlimir eru hoggnir af, og menn hlaupa um allt með sverð,“ segir Arnold.
Í öðru viðtali, nú við Aint it cool vefsíðuna, segir Arnold: „Fyrri aðilar höfðu misst af lestinni, en [Universal] ætla að taka verkefnið alvarlega og gera gæða mynd með A-leikstjóra og A-handritshöfundi o.s.frv. Við ætlum að gera bíómynd þar sem Conan er á mínum aldri, þannig að þetta verði trúverðugt.“
Hlustið á Schwarzenegger svara spurningum Aint it Cool vefsíðunnar hér að neðan: