Allt frá því að gamanþættirnir Arrested Development voru teknir af skjánum árið 2006 hafa aðdáendur sem og framleiðendur þáttanna reynt að koma kvikmynd af stað. Það hefur gengið heldur erfiðlega en í fimm ár hafa leikarar og framleiðendur sagt myndina í bígerð og ekki lengur á dagskrá til skiptis.
Nú hefur Mitch Hurwitz, maðurinn bak við Arrested Development, lýst því yfir að myndin sé svo sannarlega á leiðinni. „Framleiðslan er hafin og við vonumst til að geta hafið tökur i ár. Við vonum það, en margt þarf að ganga upp til að það takist.“
Arrested Development eru almennt taldir með betri grínþáttum sem litið hafa dagsins ljós, og eiga í dag gríðarlega stóran aðdáendahóp. Þættirnir fjalla um Michael Bluth, leikinn af Jason Bateman, sem þarf að halda kolklikkaðri fjölskyldu sinni saman þegar faðir hans er settur í steininn.
– Bjarki Dagur