Uppvakningagamanmyndin Warm Bodies er vinsælasta bíómyndin í Bandaríkjunum þessa helgina, en myndin, sem er með Nicholas Hault í aðalhlutverkinu, var frumsýnd á föstudaginn. Það er því greinilegt að áhugi manna á uppvakningum er ekkert að minnka.
Myndin fjallar um það þegar uppvakningur fer að gera sér dælt við vinkonu eins af fórnarlömbum hans, þá setur ástarsamband þeirra af stað röð atvika sem gætu umbreytt öllum heimi hinna lifandi dauðu.
Myndin er kvikmyndagerð af bók eftir Isaac Marion og fjallar um R sem þvælist í gegnum lífið, borðandi heila eins og hver annar uppvakningur. En það lúrir ennþá eitthvað mannlegt eftir í mygluðum hausnum á honum, og þegar hann hittir Julie, þá kviknar ástareldur.
Það eru þó skiljanlega nokkrir erfiðleikar sem fylgja þessu sambandi. R er hægt og sígandi að grotna niður, og flestir vinir hans þrá ekkert meira en að éta vinkonu hans, en hún býr í athvarfi fyrir menn sem faðir hennar General Grigio, sem leikinn er af John Malkovich, rekur. Grigio hefur svarið að útrýma uppvakningum af jörðinni, en sagan gerist eftir allsherjarstríð.
Sjáðu stikluna úr Warm Bodies hér að neðan:
Warm Bodies þénaði 8,1 milljón Bandaríkjadali á föstudaginn og henni er spáð 20 milljón dala tekjum yfir helgina. Aðsókn á myndina var mun betri en á myndina sem var næst vinsælust, Hansel & Gretel: Witch Hunters, toppmynd síðustu helgar, en hún þénaði 2,9 milljón dali á föstudaginn.
Vonbrigði helgarinnar eru þó líklega aðsókn á nýjustu hasarmynd Sylvester Stallone, Bullet to the Head, en hún þénaði einungis 1,7 milljón dali á föstudaginn, og stefnir í aðeins 5 milljónir dala í tekjur yfir alla helgina. Ef svo fer er þetta versta byrjun á Stallone mynd síðan myndin Shade var frumsýnd árið 2004.
Í kvöld er úrslitaleikur bandaríska fótboltans í Bandaríkjunum, Super Bowl, og helgin svokölluð Super Bowl helgi, en hún er alla jafna frekar léleg bíóhelgi í landinu.