Fyrir atriði þessarar viku fór ég út í Laugarásvideo og leigði mér Útlagann á DVD. Ég veit ekki til þess að jafn léleg DVD útgáfa hafi nokkur tíma sést á landinu. Auðvitað hef ég ekkert út á Laugarásvideo að setja enda með eitt besta safn af íslenskum kvikmyndum. Heldur er það Bergvík sem prentaði þessa hlægilegu útgáfu sem er greinilega bara afrit af beta spólu sem þeir hafa átt ofan í skúffu. Svipað hefur verið gert með Nýtt líf og hinar líf myndirnar sem Sena gaf út. Útskýringin sem þeir höfðu var að þeir vildu geta selt þær á sem lægstu verði. Enda voru þær seldar á rétt rúmar þúsund krónur og hef ég nýlega séð þær á útsölu á undir þúsund krónum stykkið. Ekki er hægt að segja það sama um Útlagann sem er seldur á 2.500 krónum á heimasíðu Bergvíkur.
Ég býst við því að ég verði að gera smá úttekt á því hvað er svona lélegt við þessa úgáfu. Í fyrsta lagi þá höfðu þeir ekkert fyrir því að klippa hana niður í rétta lengd, heldur er allur diskurinn rúmir tveir tímar (myndin sjálf 1:40 svo kemur níu mínútur af svörtu, eftir því sést beta spólan spólast til baka á fimm mínútum og svo aftur svart í níu mínútur). Í öðru lagi hefur ekkert verið lagt í að velja almennileg kaflaskipti heldur fær hún einfaldlega kaflaskipti á tíu mínútna fresti, sem eyðileggur í raun ástæðuna fyrir kaflaskiptum. Og í síðasta lagi er engin valmynd heldur bara einn takki sem kemur myndinni af stað.
En myndin sjálf markaði tímamót í íslenskri kvikmyndagerð með því að vera fyrsta víkingamynd íslendinga. Atriðið sem ég valdi er úr seinni hluta myndarinnar þegar dauðdagi Gísla Súrsonar færist nær. Fær hann að fela sig í húsum Refs vinar síns á meðan Börkur er að leita hans. Orðbragð konu Refs er mér vel í minni frá því að ég horfði fyrst á myndina fyrir samræmdu próf í denn. Aldrei hafði ég áður heyrt neinn blóta jafn mikið án þess að nota ensku slettur.
Að auki setti ég inn Útlaginn á 5 mínútum sem kom í lokinn á DVD disknum. Upprunalega útgáfan er að sjálfsögðu afturábak, en með því að spila það afturábak gat ég líka búið til útgáfu sem er áfram. Hægt er að horfa á báðar útgáfurnar HÉR.
Í næstu viku færum við ykkur svo atriði úr verðlaunamyndinni Salt.
Atriði síðustu þrjár vikur: Skilaboð til Söndru, Skýjahöllin, Stóra planið, meira.

