Nú er svokölluð þjóðhátíðarhelgi í bandarískum bíóhúsum en þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna var núna á fimmtudaginn 4. júlí sl.
Tekjur af bíóaðsókn þessa helgi í Bandaríkjunum eru jafnan miklar, og stefna nú í samanlagt 220 milljónir Bandaríkjadala, sem er 12% aukning frá því á sama tíma á síðasta ári.
Myndin sem er að gera allt vitlaust þessa helgi er teiknimyndin Aulinn ég 2, eða Despicable Me 2, með Steve Carell í aðalhlutverkinu, en búist er við að myndin þéni 140 milljónir dala í Bandaríkjunum áður en helgin er úti.
Það eru hinsvegar vonbrigði í herbúðum Disney kvikmyndafyrirtækisins en Disney myndin The Lone Ranger með Johnny Depp og Armie Hammer, þénaði einungis 10,6 milljónir dala í gær, föstudag, og talið er að hún nái 65 milljónum yfir helgina alla, sem er mun minna en aðstandendur höfðu vonast eftir.
Aulinn ég hefur nú þegar verið frumsýnd í 38 löndum og fór á topp aðsóknarlista í 35 af þessum 38 löndum!
Þessi árangur myndarinnar þýðir að um er að ræða eina bestu frumsýningarhelgi teiknimyndar í sögunni, í öllum löndum sem myndin hefur verið frumsýnd í.
Hér fyrir neðan eru tíu aðsóknarmestu myndir föstudagsins 5. júlí í Bandaríkjunum.