Sýrlenski aðgerðasinninn og kvikmyndargerðarkonan Obaidah Zytoon er væntanleg sem gestur á Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, í ár.
Zytoon mun ásamt kvikmyndaleikstjóranum Darren Aronovsky, Kristínu Ólafsdóttur og Hrund Gunnsteinsdóttir sem gerðu myndina InnSæi – the Sea within og fleiri gestum taka þátt í friðarmálþingi sem RIFF stendur að í samvinnu við Höfða, Friðarsetur Reykjavíkurborgar og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands undir yfirskriftinni: Geta kvikmyndir stuðlað að friði?
Nokkur leynd mun hvíla yfir veru Zytoon hér á landi af ótta hennar við aðgerðir sýrlenskra yfirvalda og má til að mynda ekki taka neinar ljósmyndir af henni meðan hún dvelur hérlendis.
Zytoon hlaut verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum fyrir fáeinum vikum fyrir heimildamyndina The War Show eða Stríðssýningin , sem hún gerði í samvinnu við danska leikstjórann Andreas Dalsgaard. Í myndinni skoðar Zytoon arabíska vorið innanfrá, hvernig ástandið í landinu hefur þróast frá árinu 2011 og hvernig átökin stigmagnast, en hún starfaði sem útvarpskona í Sýrlandi áður en átökin í landinu breiddust út. Myndin verður frumsýnd á RIFF 3. október.
Þema RIFF í ár er Hvers konar friður og eru hugtökin friður og mannréttindi gegnumgangandi í vali á kvikmyndum á hátíðina.