Bandaríski grínistinn og leikkonan Amy Schumer á í viðræðum um að leika hina vinsælu dúkku Barbie, í nýrri leikinni mynd. Tökur eiga að hefjast í vor, og stefnt er að frumsýningu sumarið 2018. Handrit skrifar Hilary Winston, en Schumer mun ásamt systur sinni Kim Caramele sjá um að fínstilla handritið og endurrita þar sem þörf er á.
Í Deadline er þeirrar spurningar spurt hvað það sé sem geri Scumer að réttu leikkonunni til að leika dúkkuna frægu, sem þekkt er fyrir nánast óeðlilega „fullkomna“ líkamsbyggingu. Schumer er þekktust fyrir oft klúra brandara á sviði, og kvikmyndina Trainwreck sem var geysivinsæl. Schumer er orðin fyrirmynd kvenna um allan heim þegar kemur að umræðu um líkamsásýnd og líkamsvirðingu kvenna. Þetta allt er sagt passa fullkomlega við þá fyrirætlun myndarinnar að sýna þróun Barbie í ýmsar áttir.
Schumer mun leika Barbiedúkku sem býr í Barbielandi, á meðal ýmissa annarra tegunda Barbie persónuleika, sem dúkkusafnarar um allan heim þekkja og elska ( það eru til um 180 mismunandi Barbie dúkkur sem allar hafa mismunandi hlutverk og starfsferil ).
Barbie dúkkan sem Schumer leikur er rekin úr Barbielandi, af því að hún er ekki nógu fullkomin, hún er pínu sérvitur og passar ekki alveg nógu vel inn í lífið í landinu.
Hún fer út í hinn raunverulega heim og lendir þar í ýmsum ævintýrum, og þegar hún snýr aftur í Barbieland til að bjarga því, þá hefur hún uppgötvað að fullkomnun kemur ekki utan frá, heldur að innan, og að lykillinn að hamingjunni sé að vera maður sjálfur, frjáls undan áliti annarra ( kunnugleg mantra, en mikill sannleikur ).
Hugmyndin að myndinni hefur verið í þróun í nokkur ár, og nokkrir góðir kvenkyns handritshöfundar komið að verkinu, en að lokum tókst að finna rétta tóninn til að freista Schumer til að taka þátt.
Leitað er að leikstjóra, helst kvenkyns, samkvæmt Deadline.
Schumer er nýbúin að leika í gamanmynd í leikstjórn Jonathan Levine, og einnig drama eftir Jason Hall, Thank You For Your Service. Hún skrifaði einnig handrit að mynd með Jennifer Lawrence sem þær munu leika í saman.