Batman kvikmyndaserían og Harry Potter serían eru um það bil að fara að skipta um eigendur og um leið að rata auðveldar til neytenda, í gegnum síma, spjaldtölvur og önnur tæki.
Nýi eigandinn er bandaríski fjarskiptarisinn AT&T sem hefur tilkynnt um kaup sín á afþreyingarfyrirtækinu Time Warner. Kaupverðið er 86 milljarðar Bandaríkjadala eða tæpir tíu þúsund milljarðar íslenskra króna. Kaupsamningurinn var samþykktur af stjórnum beggja fyrirtækjanna um helgina en bíður samþykkis samkeppnisyfirvalda.
Margir telja að þarna sé of mikil samþjöppun valds á ferðinni og hefur bandaríski forsetaframbjóðandinn Donald Trump til dæmis lofað að koma í veg fyrir samninginn verði hann kosinn forseti, á þeirri forsendu að hann myndi „eyðileggja lýðræðið.“
Í frétt BBC er haft eftir sérfræðingum að um stærsta viðskiptasamning ársins sé að ræða. Með kaupunum ætlar AT&T að tryggja sér efni til að streyma um net sín og þannig fá fleiri viðskiptavini.
Með í kaupunum fylgja engar smá eignir, þar á meðal fréttastöðin CNN, sjónvarpsstöðvar HBO, sem framleiða til dæmis gríðarlega vinsæla nýlega sjónvarpsþætti eins og Westworld og The Night Of, og síðast en ekki síst eignast AT&T kvikmyndaver Warner Bros. Með í þeim kaupum fylgja gríðarlega verðmæt verkefni og réttindi kvikmyndaversins, eins og Harry Potter myndirnar og Batman myndirnar.
Smelltu hér til að sjá kvikmyndirnar sem Warner Bros er með í undirbúningi, og koma til með að fylgja með í kaupunum, verði þau samþykkt. Þarna er að finna myndir eins og Justice League, Wonder Woman, Blade Runner, Dunkirk og Fanstastic Beast seríuna, svo aðeins fátt eitt sé nefnt.