Batman og Potter fá nýjan eiganda

Batman kvikmyndaserían og Harry Potter serían eru um það bil að fara að skipta um eigendur og um leið að rata auðveldar til neytenda, í gegnum síma, spjaldtölvur og önnur tæki.

Nýi eigandinn er banda­ríski fjar­skipt­ar­is­inn AT&T sem hefur til­kynnt um kaup sín á afþrey­ing­ar­fyr­ir­tæk­inu Time Warner. Kaup­verðið er 86 millj­arðar Banda­ríkja­dala eða tæpir tíu þúsund millj­arðar ís­lenskra króna. Kaup­samn­ing­ur­inn var samþykkt­ur af stjórn­um beggja fyr­ir­tækj­anna um helgina en bíður samþykkis sam­keppn­is­yf­ir­valda.

batman-ben-affleck

Margir telja að þarna sé of mikil samþjöppun valds á ferðinni og hefur bandaríski forsetaframbjóðandinn Donald Trump til dæmis lofað að koma í veg fyrir samninginn verði hann kosinn forseti, á þeirri forsendu að hann myndi „eyðileggja lýðræðið.“

Í frétt BBC er haft eft­ir sér­fræðing­um að um stærsta viðskipta­samn­ing árs­ins sé að ræða. Með kaup­un­um ætl­ar AT&T að tryggja sér efni til að streyma um net sín og þannig fá fleiri viðskipta­vini.

Með í kaupunum fylgja engar smá eignir, þar á meðal frétta­stöðin CNN, sjón­varps­stöðvar HBO, sem framleiða til dæmis gríðarlega vinsæla nýlega sjónvarpsþætti eins og Westworld og The Night Of,  og síðast en ekki síst eignast AT&T kvik­mynda­ver Warner Bros. Með í þeim kaupum fylgja gríðarlega verðmæt verkefni og réttindi kvikmyndaversins, eins og Harry Potter myndirnar og Batman myndirnar.

Smelltu hér til að sjá kvikmyndirnar sem Warner Bros er með í undirbúningi, og koma til með að fylgja með í kaupunum, verði þau samþykkt. Þarna er að finna myndir eins og Justice League, Wonder Woman, Blade Runner, Dunkirk og Fanstastic Beast seríuna, svo aðeins fátt eitt sé nefnt.