Nú er aðeins vika þangað til Warner Bros. kvikmyndafyrirtækið mun frumsýna nýtt sýnishorn úr myndinni sem margir bíða nú eftir með öndina í hálsinum, Batman v Superman, en þangað til geta menn ornað sér við glænýjar myndir sem tímaritið Entertainment Weekly birtir í nýjasta tölublaði sínu, sem er helgað Comic-Con ráðstefnunni í San Diego í Bandaríkjunum.
Þrenningin Superman, Batman og Wonder Woman, eru þannig á forsíðunni, ( sjá að neðan ) og inni í ritinu eru ýmsar ljósmyndir úr bíómyndinni.
Sú sem er hvað mest sláandi af þeim er mynd af þeim félögum Superman og Batman, öðru nafni Man of Steel og Dark Knight, þar sem þeir horfast ískaldir í augu.
Exclusive: 6 first look images of @BatmanVSuperman: http://t.co/OSE0O7uZFO #EWComicCon pic.twitter.com/CJexq1W66y
— Entertainment Weekly (@EW) July 2, 2015
Í myndinni mætir Henry Cavill aftur til leiks sem Superman, en hann lék ofurhetjuna í myndinni Man of Steel frá árinu 2013. Ben Affleck leikur hinsvegear Batman í fyrsta skipti.
Miðað við fyrstu kitluna úr myndinni þá er vitað að almenningsálitið hefur snúist á sveif með Kal-El ( Superman ) eftir að hann bjargaði heiminum frá General Zod. Þannig líta margir á hann sem bjargvætt og hetju, á meðan aðrir telja að hann sé aðkomumaður með illt í huga, og ætli sér heimsyfirráð.
Bruce Wayne ( Batman ) er hinsvegar milljarðamæringur á daginn, en sjálfskipuð hetja á nóttunni, sem menn hafa einnig misjafnar skoðanir á. Í Entertainment Weekly er þeirri spurningu varpað fram hvort Batman eigi roð í Superman með sína ofurkrafta, en þar er sagt frá því að Batman muni í myndinni búa yfir sérstyrktum búnaði með kryptoníti, sem dregur mátt úr Superman.
We go behind the scenes of @BatmanVSuperman in your ultimate #SDCC preview: http://t.co/84VDV1OWTy #EWComicCon pic.twitter.com/CCX90pDllm
— Entertainment Weekly (@EW) July 2, 2015
Gal Gadot leikur Wonder Woman, og er með þeim félögum eins og fyrr sagði á forsíðunni. Í tímaritinu er sagt frá því að hún verði kynnt til sögunnar sem Diana Prince, og hitti Wayne fyrst á fjáröflunardansleik, en þau tvö vita bæði af hliðarsjálfum hvors annars.
Myndin kemur í bíó 25. mars, 2016.