Framleiðandinn David Katzenberg ásamt Seth Grahame-Smith, höfundi bókarinnar Pride & Prejudice and Zombies, hefur skrifað undir tveggja bíómynda kvikmyndasamning hjá Warner Bros. stúdíóinu. Samkvæmt heimasíðunni Deadline á eitt af fyrstu handritsverkefnum þeirra að vera sjálfstætt framhald myndarinnar Beetlejuice, sem Tim Burton leikstýrði árið 1988.
Tekið er sterklega fram að Warner vilji ekki endurgera myndina heldur gefa henni endurræsingu með því að byggja ofan á söguþráð fyrstu myndarinnar svo hægt sé að tengja þær. Alls ekki ósvipað því hvernig The Incredible Hulk var svona óformlegt framhald Ang Lee-myndarinnar, þrátt fyrir að vera fyrst og fremst talin endurræsing.
Grahame-Smith átti smá þátt í skrifunum á næstu mynd Burtons, Dark Shadows. Burton er annars einn framleiðandi myndarinnar Abraham Lincoln: Vampire Hunter, sem er byggð á bók eftir Grahame-Smith.
Ekkert er vitað neitt um hvaða persónur snúa aftur í Beetlejuice-framhaldinu eða hversu margir af gamla leikhópnum snúa aftur. Michael Keaton, þrátt fyrir að vera orðinn sextugur, hefur hins vegar lengi sagst vilja leika Beetlejuice aftur. Hann telur þetta hlutverk ennþá í dag vera eitt það skemmtilegasta sem hann hefur nokkurn tímann tekið að sér.