Ýmsar upplýsingar hafa komið fram í dagsljósið undanfarið um framhald Jurassic World, sem hefur slegið rækilega í gegn í sumar. Nú þegar er hún orðin þriðja tekjuhæsta mynd allra tíma með yfir 1,5 milljarða dala í miðasölutekjur um heim allan en framleiðsla hennar kostaði „aðeins“ 150 milljónir dala.
Jurassic World 2 kemur út 22. júní vestanhafs árið 2018.
Leikstjórinn verður sá sami, Colin Trevorrow. Hann mun semja handritið með Derek Connolly, eins og í fyrri myndinni.
Steven Spielberg og Frank Marshall munu aftur annast framleiðsluna, auk þess sem Chris Pratt og Bryce Dallas Howard verða aftur í aðalhlutverkunum.
Í viðtali við Empire sagði Trevorrow að margar framhaldsmyndir séu í burðarliðnum. „Við töluðum alltaf mikið um framhaldsmyndir. Við vildum gera eitthvað sem gæti orðið að seríu sem hægt væri að líta á sem eina heild,“ sagði hann.