Boðssýning: PIRANHA 3-D

Á fimmtudaginn næsta ætlar Kvikmyndir.is að troða sér inná forsýninguna hjá X-inu á Piranha 3-D. Við fengum alveg hátt í 200 miða í hendurnar og markmiðið er að koma þeim öllum út svo salurinn verði pakkaður af fólki sem nýtur þess að horfa á brjóst og blóðsúthellingar í 80 mínútur.

En fyrir þá sem eru ekki alveg klárir á því hvaða – eða hvers konar – mynd þetta er þá get ég frætt ykkur aðeins um það. Hún er ekkert nema pjúra RUGL, en ég meina það alls ekki á slæman hátt. Við erum að tala um mynd sem setur sér afskaplega einföld markmið, og það er að vera eins ógeðfelld og klámfengin og hún getur verið. Menn hafa jafnvel kallað hana nokkurs konar paródíu, en það sem er langfurðulegast er að gagnrýnendur hafa tekið á móti þessari mynd með opnum örmum… sem gerist venjulega ALDREI fyrir svona myndir.

Piranha er með yfir 70% á RottenTomatoes og flestir virðast vera á þeirri skoðun að myndin veit nákvæmlega hvað hún er að gera, og skemmtir sér með látum.

Ef þetta er mynd sem þig langar til að sjá með okkur þá máttu senda á mig tölvupóst á tommi@kvikmyndir.is og segja mér… tjahh… bara EITTHVAÐ. Má vera hvað sem er svo lengi sem kennitala fylgir með (myndin er bönnuð innan 16 ára og af GÓÐRI ástæðu!). Ég dreg síðan nöfn af handahófi (eða hvað?) í kringum miðnætti í kvöld.

Sýningin verður kl. 22:00 í Smárabíói. Sjáumst vonandi þar.

T.V.