Þórhallur miðill staddur á Hereafter í kvöld

Eftirfarandi texti er fréttatilkynning frá Sambíóunum:

Sambíóin ásamt Þórhalli miðli og Stöð 2 vilja vekja athygli á því að fimmtudaginn 6. janúar verður sérstök fjáröflunarsýning í Sambíóunum Egilshöll til styrktar Sjónarhóli – ráðgjafarmiðstöð fyrir foreldra barna með sérþarfir.

Miðaverð er 1.500 kr og rennur allur ágóði sýningarinnar til Sjónarhóls en hægt er að kaupa miða á heimasíðu Sambíóanna sem og miðasölu Sambíóanna um land allt.

Herlegheitin hefjast klukkan 19:00 og mun Þórhallur miðill byrja kvöldið með skyggnilýsingu fyrir viðstadda en að henni lokinni verður nýjasta mynd Clint Eastwoods, Hereafter forsýnd.

Sjónarhóll:

Til Sjónarhóls leita fjölskyldur með börn sín á ýmsum aldri og með margvísleg vandamál. Þar getur verið um að ræða vandamál tengd skóla, skort á stuðningsúrræðum, félagsleg vandamál og margt fleira.

Þjónusta Sjónarhóls er fyrir allt landið og er mikil áhersla lögð á að hingað geti allir leitað. Þjónustan er endurgjaldslaus og ekki er þörf á tilvísun eða greiningu. Á Sjónarhóli starfa ráðgjafar með foreldrum á
þeirra forsendum, með það að markmiði að leita lausna á vandamálunum og styðja við bakið á foreldrum á þeirri vegferð.