Nýjasta mynd bæði Brad Pitt og leikstjórans Andrew Dominik, Killing Them Softly, var frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni sem var að líða og hefur umtalið ekki verið af verri endanum. Strax hefur hún verið kölluð „Drive– ársins 2012″ og hlutverk Pitts borið saman við hans bestu frammistöður og þá sérstaklega persónu hans Tyler Durden úr Fight Club. TotalFilm skellti henni í 3. sætið yfir bestu myndir hátíðarinnar. Hún baðaði sig þó ekki í ljóma verðlaunanna þar sem hún keppti aðeins um Palme d’Or verðlaunin eftirsóttu, sem snillingurinn Michael Haneke hreppti auðvitað.
Þrátt fyrir það er Killing Them Softly ein af áhugaverðustu myndunum til að koma frá hátíðinni í ár, enda skiljanlegt þar sem Dominik og Pitt skiluðu seinast helvíti góðri kvikmynd og markar þetta annað samstarfsverkefni þeirra.
Myndin fjallar um leðurklædda harðnaglann Jackie Cogan (Pitt) sem vinnur í glæpaheimi Louisiana. Eftir að pókerleikur undir væng mafíunnar er rændur, þarf Cogan að rannsaka málið sem leiðir hann fljótt niður óvissar götur.
Því miður hefur formleg stikla ekki enn verið gefin út, en þeir hjá IGN voru nógu góðir að frumsýna stutta klippu úr myndinni:
Það er ekki spurning að Killing Them Softly mun draga að sér athygli eftir því sem nær dregur að útgáfudegi hennar, en Drive sýndi það að enn er áhugi fyrir svona arthouse-glæpamyndum. Killing er síðan væntanleg í september næstkomandi.