Þrettánda RIFF hátíðin sett í kvöld

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, verður sett í þrettánda sinn í Háskólabíói í kvöld, fimmtudaginn 29. september kl. 19.30. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra setur hátíðina og sér Þorsteinn Guðmundsson leikari og grínisti um hina svokölluðu hátíðargusu að þessu sinni. Hátíðin stendur til 9. október.

Í kjölfar setningarinnar verður opnunarmynd hátíðarinnar, Sundáhrifin eftir Sólveigu Anspach heitna sýnd að viðstöddum aðstandendum myndarinnar, þar á meðal Skúla Malmquist framleiðanda myndarinnar, höfundi tónlistar í myndinni, Martin Wheeler, og dóttur Sólveigar, Clöru Lemaire Anspach.

Myndin fjallar um mann sem verður ástfanginn af sundkennara og skráir sig því á sundnámskeið þrátt fyrir að vera syndur.

SEQ 13, J3, Cours de natation, Samir, Agathe et ado

Meðal annara mynda á hátíðinni í ár eru hin athyglisverða Stríðssýningin eftir Andreas Dalsgaard og Obaidah Zytoon sem hlaut verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum fyrir skömmu, Herra alheimur eftir Tizza Covi og Rainer Frimmel, sem var tilnefnd á kvikmyndahátíðinni í Locarno fyrr á árinu og handhafi Gullbjarnarins á kvikmyndahátíðinni í Berlín í ár, Eldur á sjó eftir Gianfranco Rosi, sem er lokamynd hátíðarinnar.

11 keppa um Gullna lundann

Ellefu leikstjórar sýna fyrstu eða aðra kvikmynd sína í fullri lengd í flokknum Vitranir , og keppa um aðalverðlaun hátíðarinnar, Gullna lundann. Margar þeirra koma ferskar af kvikmyndahátíðum m.a. frá Toronto, Feneyjum og San Sebastian: Guðleysi eftir Ralitza Petrova, sem hlaut Gullna hlébarðann í Locarno fyrr á árinu, og Dýrafræði eftir Ivan I. Tverdovsky, sem hlaut verðlaun í Karlovy Vary, Hættu að glápa á diskinn minn eftir Hana Jusic, Kyrralíf eftir Maud Alpi, Risinn eftir Johannes Nyholm, Wùlu eftir Daouda Coulibaly, Persónuleg mál eftir Maha Haj, sem var valin í Un Certain Regard-flokkinn í Cannes fyrr á árinu Skuggavera eftir Felipe Guerrero, Veraldarvana stúlkan eftir Marco Danieli, Garður eftir Sofia Exarchou og Allt hið fagra eftir Aasne Vaa Greibrokk

Aðaldómnefnd hátíðarinnar er skipuð Grími Hákonarsyni, Yrsu Sigurðardóttur og Jonasi Lindberg, listræns stjórnanda kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg.

Níu glænýjar íslenskar

Níu glænýjar myndir verða sýndar í flokknum Ísland í brennidepli, bæði leiknar myndir og heimildamyndir, þar á meðal Baskavígin sem kemur beint af kvikmyndahátíðinni í San Sebastian og Glæpasaga á Vestfjörðum með þýsku stjörnunni Franka Potente í aðalhlutverki, sem er heimsfrumsýnd á hátíðinni. Íslenska heimildamyndin InnSæi – the Sea within mun keppa í flokknum Önnur framtíð, sem inniheldur kvikmyndir sem varpa ljósi á umhverfis- og mannúðarmál.

Aronofsky, Mehta og Sevigny heiðursgestir

Darren Aronofsky, Deepa Mehta og Chloë Sevigny eru heiðursgestir RIFF í ár. Úrval verka þeirra verður sýnd á hátíðinni; Svarti svanurinn, Sálumessa draums og Bardagakappinn eftir Aronofsky, Góðu strákarnir, Miðnæturbörnin og hin glænýja Birtingarmynd ofbeldis , sem var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto fyrr í mánuðinum, eftir Deepu Mehta.

Frumraun Chloë Sevigny í leikstjórastólnum, stuttmyndin Kitty , verður sýnd í flokki erlendra stuttmynda og verða í fyrsta sinn veitt verðlaun í þeim flokki á RIFF. Darren Aronofsky og Deepa Mehta verða með meistaraspjöll á hátíðinni. Alejandro Jodorowsky er heiðurleikstjóri RIFF í ár og mun sonur hans, Brontis Jodorowsky taka þátt í hátíðinni og vera með meistaraspjall. Allra nýjustu myndir Jodorowsky, Dans raunveruleikans og Ljóð án enda , verða sýndar.

Gleðilega hátíð!

Stikk: