Jake Gyllenhaal segir að sú breyting sem hann gerði á líkama sínum fyrir nýjustu mynd sína, hnefaleikadramað Southpaw, hafi breytt honum í „skepnu“.
Leikarinn bætti á sig 13 kílóum af vöðvum og losaði sig við megnið af líkamsfitunni, til að leika hnefaleikamanninn Billy Hope í myndinni.
Gyllenhaal segist í samtali við Sky fréttastofnuna hafa æft stíft í 10 mánuði, og framkvæmt 1.000 lyftingar á dag, hlaupið hátt í 10 kílómetra og eytt ótæpilegum tíma í hnefaleikaþjálfun, til að vera sannfærandi í hlutverkinu.
„Þú ferð að trúa að þú sért alvöru bardagakappi, þú ert kominn í slíkt form að það smitar út frá sér og þú færð ofurtrú á sjálfum þér – þér líður dýrslega, eins og skepnu,“ sagði hann við Sky News.
Líkamsbreytingin er því meira sláandi þegar litið er til þess að myndin var tekin upp strax á eftir myndinni Nightcrawler, en þar lék hann æsiljósmyndarann sérstaka og hálf væskilslega, Lou Bloom.
Fyrir hlutverk Bloom lifði hann á kale salati og tyggigúmmíi, og hljóp 20 km á hverju kvöldi til að laga útlit sitt að persónunni.
Hann viðurkennir að hann hafi gaman af að breyta líkama sínum svo mikið fyrir hlutverk.
„Ég trúi því í raun að frelsi sé hin hliðin á aga – og ég tel mig ekki vera það kláran að geta bara mætt og afgreitt þetta,“ sagði hann.
En þrátt fyrir ótæpilegan tíma í ræktinni, sagði hann að stór hluti af hnefaleikamyndum færi fram utan hnefaleikahringsins, og hefði ekkert að gera með breytingu á líkamlegu atgervi.
Rachel McAdams leikur eiginkonu Billy Hope í myndinni, en myndin segir söguna af því þegar boxarinn reynir að koma lífi sínu aftur á réttan kjöl eftir sorglegt slys.
Southpaw kemur í bíó á Íslandi 14. ágúst nk.