Bridesmaids 2 án Kristen Wiig?

Bridesmaids var ein af skemmtilegustu gamanmyndum síðasta árs, sem var ekki síst að þakka frammistöðu Kristen Wiig í aðalhlutverki myndarinar ásamt sterku handriti sem hún skrifaði ásamt Annie Mumalo. Það kemur því verulega á óvart að Universal sé að íhuga möguleikann á að gera framhaldsmynd án þáttöku hennar.

Þá furðulegu pælingu má reyndar skýra með þeirri einföldu staðreynd að Wiig virðist ekki hafa áhuga á að snúa aftur, og Universal eru örvæntingarfullir að setja eitthvað í bíó (annað en Fast & Furious seríuna) sem græðir peninga. Judd Apatow framleiðandi myndarinnar hefur sagt að hann vilji ekki gera aðra mynd nema að hún geti verið frábær, svo ekki er talið líklegt að hann vilji vera með án þeirra Wiig og Mumalo. Hinsvegar hefur leikstjórinn Paul Feig lýst yfir áhuga sínum á framhaldi (samt örugglega með það í huga að Wiig yrði með), og Universal eru sagðir vera að vonast eftir þáttöku Melissa McCarthy sem sló í gegn í aukahlutverki sínu í fyrri myndinni.

Í tilefni dagsins má sjá hér skemmtilegt viðtal við þær Kirsten Wiig og Rose Byrne þar sem þær lýsa m.a. frekar óraunhæfum hugmyndum sínum um Bridesmaids 2.

Frekar myndi ég borga mig inn á þeirra útgáfu af framhaldinu heldur en útgáfu Universal. Því eins og ritstjóri Kvikmynda.is komst svo skemmtilega að orði:

„Bridesmaids 2 án Kristen Wiig?? Eru þeir þroskaheftir?!?!? Wiig er ein besta gamanleikkonan á lífi í dag.“