Það eru ábyggilega ekki fáir sem halda því fram að það sé ekki alslæmur hlutur að vera haldinn stjórnlausri kynlífsfíkn. Ég meina, að minnsta kosti er ekkert lífshættulega skaðlegt við svoleiðis, eða hvað? Samkvæmt Michael Fassbender í Shame er þetta allt annað en dans á rósum, og eins og öll önnur fíkn er sóst í tímabundna vellíðu sem breytist í drungalegan vítahring og togar lífið, eins og það leggur sig, smám saman niður með því að halda fast utan um hárið. Semsagt, einbeitingin fer út í allar áttir og tilveran getur auðveldlega fokkast upp.
Þó svo að margar konur vilja eflaust sofa hjá Michael Fassbender, þá yrði það ekki ráðlagt með karakternum sem hann leikur hér. Og þótt magir karlmenn vilji vera hann, sérstaklega með þessa hneykslandi slöngu sem lafir á milli lappanna hans, þá vill enginn vera karakterinn sem hann leikur í Shame. Myndin er líka raunveruleg, dökk, oft óþægileg og hefur lítinn áhuga á því að fegra hlutina. Þess vegna er myndin samt svo djörf og – að mínu mati – nálægt því að vera einhvers konar létt-grafískt indí-meistaraverk, og Fassbender á algjöran stórsigur í erfiðu og fráhrindandi hlutverki.
Karakterinn hans Fassbender, sem kemur næstum fram í hverri einustu senu, er andlegur ruslahaugur af springandi kynorku, og þjáningin hans varpar mjög óþægilegri tilfinningu yfir á áhorfandann. En þá meina ég auðvitað á góðan þátt, því þetta þýðir greinilega að hvað sem myndin er að reyna að gera, þá er það klárlega að virka. Auk þess er handritið svo beitt og grípandi og myndin svo útpæld, í efni, tæknivinnslu og stílnum almennt. Leikstjórinn (með eitursvala nafnið) Steve McQueen, sem sendi frá sér hina geðsjúku Hunger árið 2008, er vafalaust fæddur fagmaður sem öðlast ólýsanlegt traust frá leikurum sínum. Hann ætlast heldur ekki til lítils af þeim, og augljóslega segir afraksturinn og styrkleiki hans að traustið hafi margborgað sig. Jafnvel ef leikararnir hefðu sökkað hefði ég samt virt þá fyrir að vera svona berskjaldaðir (andlega og líkamlega), en myndin gæti sem betur fer ekki verið meira andstæðan frá því að sökka.
Ég elskaði þessa dökku, klámfengnu, áhrifaríku perlu vegna þess að hún grípur mann á marga vegu, og þar að auki tekst henni stöðugt að segja svo margt með atriðum án þess að hlutirnir séu stafaðir út eða kortlagðir. Myndin er snjöll alla leið, og hún er heldur ekki gerð fyrir þá sem fara ekki oft í bíó. Aukastig fær hún líka fyrir að sitja svona lengi í manni, og því oftar sem ég spila hana aftur í hausnum mínum, því meira virðist ég dýrka hana.
Fassbender held ég sé að sé ófær um að leika illa, og ef það er eitthvað sem X-Men: First Class og Shame hafa kennt mér, það er að allir sem hafa áhuga á nútíma kvikmyndum eiga að þekkja nafnið á þessum manni. Hann er kannski ekki sá fjölbreyttasti í heimi, eða hefur allavega ekki verið það hingað til, en þegar hlutverkið býður upp á kraft og óþvinguð, dramatísk tilþrif, þá er hann alltaf 110% sannfærandi, og á móti því er hann óeðlilega ríkur á karisma. Það sem Shame gerir er að sameina bestu hliðar mannsins í eitt, átakanlegt burðarhlutverk, en það er stærsta ástæðan fyrir því að karakterinn er svona athyglisverður.
Kynlífsfíkillinn umræddi er ekki slæm manneskja, en hrikalega gölluð engu að síður með mjög alvarlegt vandamál. Við fáum að kynnast honum sem töffara, skíthæl og varnarlausum aumingja, og án þess að segja frá of miklu, þá spilar prófíllinn hans stórt hlutverk í flottum (en kannski pínu hefðbundnum) endi. Samband hans við systur sína (leikin stórkostlega af Carey Mulligan, enda gráta fáar leikkonur jafnmikið og hún) stýrir sögunni þar sem þau bæði deila minningum sem eru ekki gefnar upp. Það eina sem vitað er að þær eru ekki mjög jákvæðar, og það er ekki leiðinlegt frelsið sem manni er gefið með því að fylla aðeins í sumar eyðurnar. Auk þess eru öll samtölin eðlileg og þeim er oft leyft að spilast út með löngum óklipptum tökum, sem er líka eitt besta vopnið sem myndin hefur. Bestu atriðin eru oftast þessi sem eru einungis löng kameruskot, og það nýtist á ýmsa vegu til að annaðhvort bæta auka þunga inn í senur eða undirstrika blákalda raunveruleika myndarinnar.
Kvikmyndatakan er vönduð, tónlistin smellpassar og almennt múdið gæti ekki betur endurspeglað tilfinningarnar sem eru hér á borðinu. Ofan á það er vert að minnast snöggt á kynlífsatriðin, sem eru í talsverðu magni en sparlega notuð engu að síður og þjóna flestöll miklum tilgangi í persónusköpuninni. Einnig eru þau sjaldan kynæsandi og oftast meira truflandi heldur en ekki, og eins abstrakt og það hljómar, þá kann ég að meta það. Í heild sinni er Shame stórkostlega skemmd mynd sem fær mann til að skoða það sem er undir yfirborðinu og í þokkabót heldur hún athygli manns og skilur fullt eftir sig, sem þýðir að hún hverfur ekki fljótt úr minninu. Ég væri alveg til í að fá fleiri svoleiðis myndir.
(9/10)
PS. Já, Carey Mulligan sést nakin. Nei, það er ekkert über sexí.
PPS. Þið sem ætlið að sjá þessa mynd, passið að fleygja ykkur ekki í gólfið þegar Fassbender sveiflar bjúgunni sinni í áttina að kamerunni. Munið eftir atriðinu í Hugo þegar fyrsta bíómyndin sýndi lest bruna í áttina að skjánum og allir panikkuðu?
Nokkurn veginn það sama.