Þriðji Hobbitinn er kominn með dagsetningu

Tolkien-aðdáendur eru í rauninni enn að melta stóru fréttirnar. Skiljanlega. En svo það sé alveg komið á hreint þá heitir fyrsti hlutinn enn The Hobbit: An Unexpected Journey og er væntanlegur um jólin á þessu ári. Annar hluti sögunnar hefur nú opinberlega fengið (fyrirsjáanlega) heitið The Hobbit: The Desolation of Smaug (kemur í desember á næsta ári), sem þýðir að núna hefur glænýja/þriðja myndin fengið heitið The Hobbit: There and Back Again, sem var upprunalegi titill seinni hlutans þegar stóð til boða að hafa Hobbitamyndirnar einungis tvær. Lokakaflinn er skráður í bíó þann 18. júlí á þarnæsta ári. Hingað til hafa bíógestir aldrei fengið að njóta ævintýraheim Miðgarðs á sumartíma, en margir myndu færa rök fyrir því að þetta séu hinar fullkomnu jólamyndir.
Ert þú kannski einn af þeim?

David Fellman, einn af dreifingarstjórum Warner Bros., sagði að stúdíóið vildi sjá til þess að bilið á milli annarar og þriðju myndarinnar yrði í styttri kantinum. „Nú erum við með flotta sumardagsetningu en það sem skiptir meira máli er að áhorfendur þurfi ekki lengur að bíða heilt ár til að sjá lokahlutann á þessu epíska ævintýri,“ segir hann í yfirlýsingu sem hann gaf út.

Annars er ekki enn vitað hvort Íslensku bíóin munu sýna myndina í 48 römmum á sek. Undirritaður hefur verið að kanna þetta og hefur hingað til verið sagt að það komi til greina.