Nú er í tísku í Hollywood að taka myndir upp í þrívídd, og telja margir reyndar að þrívíddartæknin sé komin til að vera í þetta sinn. Þegar taka á upp mynd í þrívídd þarf að undirbúa tökurnar mjög tímanlega og ekki er hægt að stökkva í það á síðustu metrunum. Upptökur á einstökum atriðum þarf að hugsa með þrívíddina í huga og auðvitað með öllum tilheyrandi tæknibúnaði.
Leikstjórinn Jon Favreau vildi alltaf taka Iron Man 2 upp í þrívídd, en ekkert varð af því. Myndin var tekin upp með hefðbundnum hætti. Nú er kvikmyndaverið að gæla við þá hugmynd að breyta Iron Man 2 í þrívíddarmynd með nútímatækni. Svo virðist sem tekin hafi verið upp ein mínúta í þrívídd til að nota í kynningarefni sem heillaði marga upp úr skónum. Fregnir herma að svo heillað hafi fólkið sem sá kynningarstikluna verið, að stúdíóið sendi fyrirspurn til þeirra þriggja fyrirtækja sem eru fremst í flokki í þrívíddartækninni og bað um tilboð í verkið.
Ekki er þó enn ljóst hvernig fer, en spurningin er: yrðir þú spenntur fyrir að sjá Iron Man 2 í þrívídd?

