Frægasti kvikmyndagagnrýnandi í heimi ( fyrir utan Tomma hér á kvikmyndir.is auðvitað ) , Roger Ebert ætlar að snúa aftur í sjónvarpið til að gagnrýna kvikmyndir, í sérstökum kvikmyndagagnrýnisþátti sem hann framleiðir sjálfur.
Ebert sem fékk krabbamein og hefur ekki getað tala eða borðað síðan þá, segir að hinir frægu „þumlar upp og þumlar“ niður dómar muni snúa aftur, en þeir urðu frægir í þáttum sem hann kom fram í ásamt Gene Siskel.
„Þetta er draumur endurfæddur,“ sagði Ebert í yfirlýsingu.
Hinn margverðlaunaði Ebert, sem hefur meðal annars fengið Pulitzer verðlaunin fyrir skrif sín í Chicago Sun-Times, framleiðir þáttinn eins og áður sagði ásamt eiginkonu sinni Chaz Ebert, en þátturinn mun heita „Roger Ebert Presents At the Movies.“
Þátturinn verður á dagskrá einu sinni í viku og verða hálftíma langur. Fyrsti þátturinn fer í loftið í janúar og verður sendur út um allt land í opnu sjónvarpi.
Ásamt Ebert munu koma fram í þættinum þeir Christy Lemire frá AP fréttastofunni og Elvis Mitchell frá Nationl Public Radio og fyrrum kvikmyndagagnrýnandi The New York Times. Ebert mun hafa sérstakt horn í þættinum sem mun heita Roger´s Office, en þar mun hann nota tölvurödd til að gagnrýna nýjar myndir og tala um kvikmyndir almennt.
Í prufuþætti sem gerður hefur verið sést Ebert sitja við tölvuna að skrifa inn gagnrýni á heimildamynd. Tölvuröddin les það sem hann skifar á skjáinn. Í lokin segir Ebert í þeirri umfjöllun: „ÉG held að þða sé mikill fengur að þessari mynd á DVD og ég gef henni stóran þumal upp.“ Og svo setur hann þumal upp í loft.
Chaz Ebert sagði í viðtali að ástæðan fyrir því að eiginmaðurinn hennar vill koma aftur í sjónvarpið með gagnrýni sé að honum hafi þótt skorta á hreinskipta gagnrýni þar sem gagnrýnendur segðu þér hvort að myndir væru þess virði að á þær sé horft.