Casablanca 2 í undirbúningi

Síðustu 70 ár hafa menn velt fyrir sér hvað varð um Rick og Ilsa í hinni sígildu Casablanca, en í nú í nóvember eru 70 ár síðan myndin var frumsýnd í New York.  Skyldu þau Richard Blaine, leikinn af Humphrey Bogart, og Ilsa Lund, leikin af  Ingrid Bergman, ná saman aftur, en hann sendi hana í burtu í flugvél til Lissabon í lok myndarinnar með eiginmanni hennar, andspyrnumanninum Victor Laszlo.

Nú er framleiðandi að nafni Cass Warner, barnabarn eins af stofnendum Warner Bros kvikmyndafyrirtækisins, og sem átti frænda sem kom að framleiðslu Casablanca, að reyna að fá kvikmyndaverið til að samþykkja framhaldsmynd, sem myndi byggjast á meira en 30 ára gömlum handritsdrögum sem skrifuð voru af Howard Koch, sem var einn þriggja handritshöfunda sem fengu Óskarsverðlaun fyrir handritið að Casablanca.

Í drögunum þá gerist sagan 20 árum eftir kveðjustundina frægu. Ilsa og sonur hennar sem hún átti með, Rick,  Richard Blaine, snúa aftur til Norður Afríku, ásamt Victor Laszlo, til að reyna að finna líffræðilegan föður drengsins (Bogart ).

Framhaldsmyndin myndi annaðhvort heita Return to Casablanca eða As Time Goes By.

Warner fann drögin að nýju myndinni á heimili Koch nokkrum árum áður en hann lést árið 1995.

„Það leið næstum yfir mig þegar Howard sýndi mér drögin, því mér fannst hann vera að rétta mér gull,“ sagði hún við breska blaðið The Independent. „Á þessum tíma, sagðist Koch vera orðinn of gamall til að standa í þessu, þannig að ég lofaði honum að einn daginn myndi ég gera mynd eftir drögunum.“

Warner hitti Koch upphaflega í Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, og hann hjálpaði til við gerð heimildarmyndar um Warner Bros, sem fyrirtæki Warner, Warner Sisters, framleiddi.

Til að myndin geti orðið að veruleika þá þarf fyrst að fá grænt ljós hjá Warner Brothers, sem á réttinn að Casablanca. Cass Warner segir að hún hafi nú þegar hitt yfirmenn kvikmyndaversins til að ræða þessi mál.

„Ég sýndi þeim drögin, og þeir eru opnir fyrir því að skoða þetta, ef ég get fengið gott handrit, og góðan leikstjóra,“ sagði Cass.

Verkefnið hefur þó mætt mótspyrnu frá aðdáendum Casablanca, sem vilja ekki skemma stemninguna sem varð til í lok myndarinnar fyrstu.

Einnig er Stephen Bogart, sonur Humphrey Bogart, mótfallinn hugmyndinni, samkvæmt frétt The Independent. 

Nú er bara að bíða og sjá hvort að Cass tekst að búa til Casablanca 2.