Jessica Chastain, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í Zero Dark Thirty, er nú orðuð við hlutverk Jane í mynd um Tarzan apabróður, sem Harry Potter leikstjórinn David Yates er með í undirbúningi og Warner Bros framleiðir.
Myndin verður gerð eftir frægri sögu Edgar Rice Burroughs um drenginn sem alinn var upp í frumskóginum af öpum, og varð síðar konungur apanna. Eins og flestir vita þá kynnast þau Tarzan og Jane á ákveðnum tímapunti og fella hugi saman.
Í sögunni sem myndin er byggð á þá er Tarzan kominn til Lundúna og er búinn að aðlagast lífinu þar þegar Victoria Englandsdrottning biður hann um að fara til Kongó í Afríku til að leysa aðsteðjandi vandamál þar í landi. Orðrómur er uppi um að Samuel L. Jackson muni leika fyrrum trúboða sem hjálpar Tarzan að bjarga Kongó úr höndum grimms stríðsherra.
Samkvæmt heimildum bandaríska blaðsins New York Post er Chastain efst á óskalista framleiðenda myndarinnar í hlutverk Jane, en áður hafa borist fregnir af því að menn sjái Alexander Skarsgard helst fyrir sér í hlutverki Tarzan.