Spænsku leikararnir, Óskarsverðlaunahafarnir og turtiildúfurnar Javier Bardem og Penelope Cruz, eru nú gift.
Athöfnin var haldin á á heimili vinar þeirra á suðurhafseyjunni sólríku Bahamas fyrr í þessum mánuði, en einungis fjölskyldumeðlimir voru viðstaddir. Þessu er haldið fram í nokkrum slúðurblöðum bandarískum, og Reuters fréttastofan greinir frá þessu.
Cruz var klædd í brúðkaupsdress frá John Galliano.
Þetta er fyrsta hjónaband beggja, en þau byrjuðu á föstu árið 2007. Cruz, sem er 36 ára, var áður í sambandi við Tom Cruise, en hún vann Óskarsverðlaunin árið 2009 fyrir leik sinn í myndinni Vicky Christina Barcelona. Bardem er 41 árs, og vann gullstyttuna frægu fyrir leik í myndinni No Country for Old Men.
Með þessu hafa þau nú slegist í hóp annarra Óskarsverðlaunahjóna, eins og Michael Douglas og Catherine Zeta-Jones, Peter Jackson og Fran Walsh, Joel Coen og Frances McDormand og lagahöfundanna Alan og Marilyn Bergman.

